Markmiðið er að draga Noreg út úr EES

Morten Harper, yfirmaður rannsókna á samskiptum Noregs og ESB hjá samtökunum Nei við ESB (n. Nei til EU) á fyrirlestri sem Heimssýn stóð fyrir í Háskóla Íslands. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

„Andstaðan gegn inngöngu í Evrópusambandið (ESB) er grjóthörð í Noregi. Mér skilst að á Íslandi sé svipaður skilningur um sjálfstæði ríkjanna. Líkur áhugi virðist vera á milli landanna á því að hafa annan fótinn innan bandalaga en hinn utan þess,“ sagði Morten Harper, yfirmaður rannsókna á samskiptum Noregs og ESB hjá samtökunum Nei við ESB (n. Nei til EU) á fyrirlestri sem Heimssýn stóð fyrir í Háskóla Íslands fyrir helgi.

Aðalefni fyrirlestrarins var EES samningurinn. „Við erum með tvö aðalmarkmið. Hið fyrra, sem er aðalmarkmiðið, er að halda Noregi utan við ESB. Hið seinna er að draga Noreg út úr samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES) til að gera betri samninga við ESB.“

Hann telur að mögulegt sé fyrir Noreg og Ísland, og jafnvel EFTA ríkin öll, að gera slíka samninga í sameiningu. Hann nefnir að eldri fríverslunarsamningar Noregs og Íslands við önnur lönd séu enn í gildi.

Samtökin Nei til EU telur 21 þúsund meðlimi, en sl. 14 ár hafa andstæðingar ESB verið í meirihluta í Noregi, sem fer vaxandi, að sögn Harper.

„Sl. 15 ár hefur vinna samtakanna miðað að því að vinna gegn EES samningnum og gagnrýna vankanta hans. Íhaldsflokkurinn „Højre“ í Noregi sé mjög hlynntur ESB og hafi inngöngu í sambandið enn á stefnuskrá sinni.

Harper nefndi að ESB væri með „fimmta frelsið“ í bígerð, „ ESB vill yfirsýn yfir orkuöryggi Evrópu. ESB er í vaxandi mæli háð innflutningi á orku og vill aukið vald til að samþykkja skipulag og öryggi orkumála innan svæðisins.“

Málarekstur vegna þriðja orkupakkans

Tekist sé á um fjórða lestarsamgangnapakkann, en einnig þriðja og fjórða orkupakka ESB. Settar hafi verið fram kröfur af norskum stjórnvöldum um að sæstrengir Norðmanna verði í þjóðareign. Ári eftir að þriðji orkupakkinn var samþykktur á norska stórþinginu, sé enn ekki búið að fastsetja tryggingu fyrir því. Samtökin hafa nú hafið málarekstur gegn norska ríkinu vegna samþykktar þriðja orkupakkans sem þau telja vera brot á stjórnarskrá landsins.

Lestarpakkinn hafi t.d. fært völd frá Noregi til Evrópskrar lestastofnunar í Frakklandi, svo dæmi sé nefnt. Jafnframt nefnir hann þjónustutilskipun Evrópu, sem fari nú fram á að ESB geti stöðvað setningu innlendra laga og reglna sem ekki falla að henni. Hann nefndi andstöðu stjórnmálaflokka á vinstri kantinum, sem vilji yfirgefa EES árið 2021, viðskiptaráða og verkalýðsfélaganna, en þar væri nú m.a. mikil óánægja vegna frjáls flæðis vinnuafls í gegnum EES samninginn sem býður upp á undirboð á vinnumarkaði.

Blaðamaður Viljans spurði hann eftir fyrirlesturinn um það hversvegna þriðji orkupakkinn væri slæmur fyrir Ísland, þar eð hann mælti fyrir um hluti sem gætu virst eftirsóknarverðir hérlendis, eins og t.d. upplausn einokunar, meiri samkeppni og sjálfstæðara eftirlit innanlands með orkufyrirtækjum og dreifingaraðilum, en auk þess hefði miðstýrð eftirlitsstofnun orkumála í Evrópu, ACER, lítið um málin að segja hérlendis, þar eð íslenskur orkumarkaður selji ekki orku útfyrir landsteinana.

„Sem dæmi, ef þriðji orkupakkinn verður samþykktur, þá er óvíst hvort sæstrengur fái að vera í eigu ríkisins. Lagning sæstrengs verði háð sérleyfum, sem einkaaðilar geti sótt um til stjórnvalda. Verði þeim umsækjendum hafnað af stjórnvöldum, þá geti þeir kært stjórnvöld fyrir brot á reglum þriðja orkupakkans og ESB, til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA dómstólsins,“ segir Harper, og bætir við að þannig verði ACER hluti af málinu og málið verði úr höndum íslenskra stjórnvalda til að taka ákvarðanir um framhaldið.

Hættan er að missa tökin

En segjum sem svo að Íslendingar leggi sæstreng til Bretlands, skiptir það einhverju máli þar sem Bretland mun ganga úr ESB eftir rúma viku að óbreyttu?

„Bretar hafa gefið það skýrt út, að þeir vilji áfram vera hluti af evrópskum orkumarkaði. Ef maður skoðar skjöl útgefin af breskum stjórnvöldum, þá má sjá þar áhuga þeirra á að vera hluti af ACER, en það veltur auðvitað á lokaniðurstöðu þeirra viðræðna. Horft til framtíðar, þá virðist það líklegt að þetta muni gerast og að það samkomulag muni svipa til þess sem er í dag,“ segir Harper og nefnir að t.d. sæstrengur á milli Bretlands og Írlands myndi tengja Ísland þannig við orkumarkað Evrópusambandsins. „Þar með yrði þetta orðin talsverð áhætta. Ég er ekki að halda því fram að þetta verði nákvæmlega svona, en hættan er á að missa tökin á þróuninni.“ 

Spurður hvort hætta sé á að ESB og ACER muni reyna að þvinga áætlunum sínum upp á Ísland, eins og t.d. orkustefnunni með 20-20-20 markmiðunum, þ.e. að árið 2020 skyldu endurnýjanlegir orkugjafar sjá ríkjunum fyrir a.m.k. 20% orkuþarfarinnar, orkunýtni skyldi aukin um 20% og losun gróðurhúsalofttegunda minnkuð um 20%, segir Harper að hann sé ekki viss hvernig það virkar hérlendis, en þannig hlutum gæti verið þvingað upp á Ísland í gegnum Eftirlitsstofnun EFTA, í stað þess að stjórnvöld geti sett sér sín eigin markmið.

„En þessir hlutir eru síður hluti af þriðja orkupakkanum heldur en þeim næsta sem nú er í bígerð, fjórða orkupakkanum.“

Að lokum telur hann ríkiseinokun á orkumarkaði ekki vera svo mikið vandamál, í Noregi hafi ríkiseinokun gefið meiri stjórn yfir orkuverði, sem nú hafi tapast. „Ef verðin hækka, þá veldur það þeim með lægri tekjur meira tjóni. Ríkiseinokunin býður upp á meiri jöfnuð.“