Lokatakmarkið hér á landi er hjarðónæmi

Sænska ríkissjónvarpið birti þetta graf í dag.

Dánartíðni vegna kórónuveirunnar er hlutfallslega hæst í Svíþjóð í samanburði við hin Norðurlöndin. Sé litið til annarra stórvelda í Evrópu; Bretlands, Frakklands, Þýskalands, Spán og Ítalíu er Svíþjóð hinsvegar langt undir viðmiðunarmörkum.

Sænska dagblaðið Expressen hefur tekið saman yfirlit yfir ólík viðbrögð Norðurlandanna í baráttunni við Covid-19 og birtir Viljinn hér það helsta sem þar kemur fram.

Nokkrir sérfræðingar hafa varað við því að önnur bylgja af faraldrinum gæti skollið á með haustinu. Jan Albert, prófessor í smitsjúkdómafræðum og smitvörnum í Svíþjóð, telur að sú bylgja muni verða mildari í Svíþjóð en hjá nágrannaþjóðum þar flestu var skellt í lás og útgöngubann sett á.

„Það er vegna þess að í löndum þar sem harðari aðgerðum hefur verið beitt hafa ekki jafn margir smitast af veirunni. Því hefur einfaldlega „toppnum“ ekki verið náð,“ segir Albert og telur það óhjákvæmilegt að faraldurinn þurfi að ná toppnum á kúrfu hvers lands fyrir sig. 

Frode Forland hjá norska landlæknisembættinu gagnrýnir á hinn bóginn aðferð Svía við að tækla faraldurinn. Hann segir að þeir gjaldi of dýru verði í mannslífum.

„Við höfum enga ástæðu til að áætla að það muni koma einhver seinni bylgja faraldsins, þótt það geti vissulega gerst,“ segir Forland.

Svíar hafa fylgt ráðfjöf sóttvarnalæknisins Anders Tegnell og unnið með svokallaða félagsforðun eins og við Íslendingar –– „social distancing“ –– beitt fjöldatakmörkunum á viðburðum ásamt heimsóknarbanni á sjúkrahús og elliheimili. Grunnskólar, verslanir og veitingastaðir hafa á hinn bóginn verið opnir frá upphafi bylgjunnar.

„Í Noregi var öllu lokað og nú er verið að ræsa samfélagið varlega í gang aftur og við erum að fara á sama viðbúnaðarstig og Svíþjóð tekur mið af í dag. Sé litið til þeirra samfélagslegu úrræða sem báðar þjóðirnar beita í dag er munurinn ekki mikill en við höfum mun lægri smittíðni en Svíar,“ segir Forland og bætir við að enn sé erfitt að segja til um hvor aðferðin hafi verið betri.

Í Finnlandi var höfuðborgarsvæðið við Helsinki lokað af frá upphafi. Mika Salminen, yfirmaður finnsku heilsu- og velferðarstofnunarinnar, telur að aðgerðin hafi stöðvað faraldurinn tímabundið en sé á sama tíma að draga hann á langinn. Hún telur líklegt að önnur smitbylgja muni koma með haustinu. 

„Það er neikvæða hliðin af því að beita einangrun. Þegar aðgerðirnar voru settar á var ekki vitað með hvaða hætti faraldurinn myndi þróast. Nú er ljóst að við höfum jafnvel verið aðeins of mikið á bremsunni,“ sagði Salminen á dögunum í viðtali við finnska MTV Uutiset.

Anders Tegnell telur að kórónuveiran muni verða til staðar í samfélaginu sama hversu miklum aðgerðum sé beitt. Þess vegna gangi aðferðarfræði Svía ekki út á að útrýma veirunni, heldur vinna upp hjarðónæmi.

„Það á einnig við um hefðbundna flensu. Það koma alltaf upp einhver undantekningartilvik yfir sumartímann en flensan er alltaf virk einhversstaðar í heiminum og getur komið upp aftur í samfélaginu. Það á einnig við kórónuveiruna. Hún getur blossað upp aftur,“ segir hann.

Frode Forland er á hinn bóginn ekki jafn trúaður á hugmyndina um hjarðónæmi. 

„Við teljum að skerðingarnar sem við settum af stað hafi átt þátt í að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins. Það hafa þjóðir á borð við Suður Kórea, Japan og Singapúr sýnt fram á. Við búumst við einstaka tilfellum en engum sérstökum toppi,“ segir Forland, en ítrekar mikilvægi þess að hafa varann á.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknisins á Íslandi, segir í viðtali við Expressen að markmiðið hér á landi sé að koma á hjarðónæmi. Það gerist annað hvort með náttúrulegum hætti með tilteknum fjölda smita eða bóluefnum. Það sé á endanum óhjákvæmilegt. 

„Við getum þó ekki setið og beðið eftir því að það muni gerast og stefna heilbrigðiskerfinu í hættu með of miklu álagi. Okkar aðgerðir hafa gengið út á að fyrirbyggja að slíkt geti gerst. Stjórnlaus faraldur hefði getað skapað mjög hættulegt ástand á Íslandi, segir Kjartan Hreinn.

Vegna smitrakningar og einangrunar hafi aðeins lítill hluti þjóðarinnar orðið fyrir smiti og því geti veiran tekið sig upp að nýju. 

„Það sem við höfum grætt á aðgerðum okkar hingað til er í raun að vinna okkur inn tíma til að finna leiðir til þess að bregðast við faraldrinum, vernda áhættuhópa og endurskipuleggja verkferla í heilbrigðiskerfinu til að koma í veg fyrir óþarfa dauðsföll. Þannig erum við betur í stakk búin að bregðst skjótt við ef önnur bylgja skellur á“, segir Kjartan Hreinn. 

Í Danmörku sést nú aukning á smitum eftir að samfélagið var opnað aftur úr einangrun, frá 0,6 upp í 0,9 smit á hvern einstakling. Forsætisráðherrann Mette Frederiksen neitar því þó að opnunin hafi orðið þess valdandi.

Þá hefur Christian Wejse, sem sinnir rannsóknum við Háskólann í Árósum, sagt í fjölmiðlum að ekkert bendi til þess að faraldurinn hafi aukist eftir að samfélagið opnaði aftur.

Annika Linde, fyrrum ráðgjafi í faraldsfræði fyrir sænsk yfirvöld, telur að þjóðir sem skellt hafa í lás með útgöngubanni og hörðum takmörkunum geti siglt ólgusjóinn með áframhaldandi smitrakningu. 

„Það er hægt að komast hjá því að faraldurinn brjótist út seinna meir með áframhaldandi utanumhaldi eins og gert hefur verið en þá ber að hafa í huga að samfélagið muni halda áfram að vera í hálfgerðum lamasessi,“ segir hún.

Frode Forland bindur vonir sínar við að bóluefni muni vera komið á markaðinn við enda ársins.  Annika Linde segir áhættusamt að bíða eftir bóluefni sem ekki er til staðar. 

„Það er aðeins hægt að bíða og vona í þeim efnum, hann gæti haft bæði rétt eða rangt fyrir sér. Að ári liðnu verður hægt að gera samantekt á þeim aðferðum sem beitt hafa verið í faraldrinum og aðeins þá hægt að segja til um hver var besti kosturinn.“

Hún telur jafnframt að ekki sé hægt að líta á dánartíðni sem viðmiðunarstiku í faraldrinum. 

„Viðmiðið á svona faraldri ætti ekki bara að styðjast við dánartíðni heldur eru hér margir þættir sem hafa ber í huga þegar kemur að velferð þegar til heildarinnar er litið í samfélaginu. Hér erum við að ræða líkamlega og andlega heilsu, lýðræðislega hætti, fjárhagsstöðu einstaklinga, svo nokkur dæmi séu nefnd,“ segir Annika Linde. 

Svala Magnea Ásdísardóttir, sjálfstætt starfandi blaðamaður á Skáni í Svíþjóð tók saman fyrir Viljann.