Maskína: Afgerandi forysta Katrínar en Halla Tómasdóttir orðin næstefst

Ný skoðanakönnun Maskínu í kvöld fyrir Stöð 2, sýnir að Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra er komin með afgerandi forystu í kapphlaupinu um Bessastaði og mælist nú með ríflega fjórðungs fylgi, eða 25,7%.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri dalar áfram í könnunum eftir gífurlegt hástökk snemma í baráttunni og mælist nú með ríflega sextán prósent fylgi. Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor mælist með 18,2%, en fyrir ofan þau er komin Halla Tómasdóttir forstjóri BTeam með 18,6% og er hún því áfram á verulegri siglingu þegar nær dregur kosningum, rétt eins og gerðist í forsetakosningunum fyrir átta árum.

Jón Gnarr fv. borgarstjóri mælist með 12,4%, Arnar Þór Jónsson fengi ríflega fimm prósent og aðrir frambjóðendur minna, ef úrslit kosninga yrðu í samræmi við könnun Maskínu.