MDE tekur fyrir kæru Ólafs: Enn einn áfellisdómurinn yfir íslensku réttarkerfi

Ólafur Ólafsson. / Skjáskot: RÚV.

Enn einn áfellisdómurinn yfir íslensku réttarkerfi er í farvatninu með ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) um að taka fyrir kæru Ólafs Ólafssonar, sem var einn aðaleigenda Kaupþings, vegna fjárfestingarumsvifa tveggja hæstaréttardómara, þeirra Markúsar Sigurbjörnssonar, þáverandi forseta dómsins, og Árna Kolbeinssonar, í aðdraganda falls stóru viðskiptabankanna til meðferðar.

Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, skýrir frá þessu í dag og segir að í bréfi sem Mannréttindardómstóllinn sendi til málsaðila fyrr í þessum mánuði, sem Markaðurinn hefur undir höndum, sé farið þess á leit við íslenska ríkið hvort hægt sé að ná samkomulagi um sátt við Ólaf, sem gæti þá meðal annars grundvallast á skaða- og miskabótum, vegna dóms í svonefndu Al-Thani máli. Var Ólafur dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir markaðsmisnotkun.

Þá hefur dómstóllinn beint þremur spurningum til íslenska ríkisins og Ólafs þar sem óskað er eftir skýringum er snúa að málinu, meðferð þess fyrir dómstólum og hver fjárfestingarumsvif þeirra dómara sem dæmdu málið hafi verið í bönkunum. Náist ekki sættir milli málsaðila fyrir 2. desember næstkomandi mun Mannréttindadómstóllinn halda áfram með málið og taka það til frekari efnismeðferðar.