Hæstiréttur staðfesti dóma Héraðsdóms og Landsréttar í morgun er hann sýknaði fjölmiðlana Stundina og Reykjavik Media af kröfum Glitnis HoldCo og ógilti þannig endanlega lögbann sem sýslumaður hafði sett á umfjöllun fjölmiðlanna um viðskipti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi forsætisráðherra, skömmu fyrir þingkosningar 2017.
Annars vegar var í málinu deilt um vernd heimildamanna og hins vegar hvort nánar tilgreind fréttaumfjöllun fjölmiðlanna tveggja á grundvelli gagna sem háð voru bankaleynd hefði verið heimil. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í heimildavernd blaðamanna fælist ekki einungis að þeim sé óheimilt að upplýsa um það hver sé heimildarmaður heldur einnig að þeim yrði ekki gert skylt að veita upplýsingar um gögn sem gæti leitt til þess að kennsl yrði borin á heimildarmanninn.
Talið var að ætla yrði blaðamönnum verulegt svigrúm til þess að meta hvort að svör við spurningum tengdum tilvist slíkra gagna kynni hugsanlega að veita vísbendingar um hver heimildarmaðurinn væri. Hvað varðaði fréttaumfjöllunina vísaði Hæstiréttur til þess að í málinu vægjust á frelsi fjölmiðla til að gera almenningi grein fyrir þeim upplýsingum sem fram komu í hinum umþrættu gögnum og réttur viðskiptamanna banka til bankaleyndar og friðhelgi einkalífs.
Með hliðsjón af því að umfjöllunin hefði átt sér stað í aðdraganda alþingiskosninga og að meginþungi hennar hefði lotið að viðskiptum þáverandi forsætisráðherra og aðilum honum tengdum, var talið að fréttaumfjöllunin hefði verið heimil.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.
Frelsið hefur sigrað
Viljanum hefur borist eftirfarandi yfirlýsing vegna málsins:
„522 dögum eftir að lögbann var sett á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media um viðskipti Glitnis og þáverandi forsætisráðherra hefur fallið endanlegur dómur Hæstaréttar tjáningarfrelsinu og upplýsingarétti almennings í vil.
Stefnandinn, þrotabú Glitnis, fékk því framgengt fyrir tilstuðlan Sýslumannsins í Reykjavík að stofna til fyrirvaralauss dómþings á skrifstofu Stundarinnar og á heimili ritstjóra Reykjavik Media og stöðva umfjöllun um viðskipti þáverandi forsætisráðherra landsins 12 dögum fyrir alþingiskosningar.
Þrotabúið lagði mikið til dómsmálsins gegn fjölmiðlunum tveimur. Aðstöðumunurinn er verulegur. Hann birtist í því að aðeins laun forstjóra Glitnis HoldCo ein og sér eru hærri en samanlögð velta Stundarinnar og Reykjavik Media, samkvæmt nýjustu aðgengilegu tölum. Ljóst er að stuðningur almennings skipti sköpum í málinu og málsvörninni.
Með lagatæknilegum flækjum tókst þrotabúinu að tefja málið og reka það í gegnum öll dómstig á 522 dögum með tilheyrandi skaða fyrir blaðamennsku og rétt almennings til upplýsinga.
Lögbannsmálið í heild sinni hefur án efa haft fælingaráhrif á fólk í samfélaginu sem hefur undir höndum upplýsingar eða gögn sem eiga mikið erindi til almennings sem það vill koma til fjölmiðla í krafti réttlætiskenndar. Þrotabú Glitnis reyndi hvað eftir annað að fá að taka skýrslu af blaðamönnum um heimildarmenn en á öllum dómstigum var því hafnað. Í dómnum er skýrt kveðið á um vernd heimildarmanna og það með mjög afgerandi hætti. Við viljum hvetja fólk sem hefur undir höndum mikilvægar upplýsingar sem varða almenning að leita til okkar.
Dæmdur málskostnaður nægir ekki til þess að tryggja þá nauðsynlegu vörn sem þurfti til að forða ólögmætu lögbanni á sjálfsagða og mikilvæga samfélagsumræðu í þágu almannahagsmuna.
Eftir stendur að brotið var gegn upplýsingarétti almennings og þar með vegið að réttinum til frjálsra kosninga. Aðstandendur Stundarinnar og Reykjavik Media vonast til þess að þessi dómur, og þeir sem hann staðfestir, standi sem bautasteinn til framtíðar með varðstöðu um upplýsingarétt almennings og frelsi fjölmiðla.“
Fyrir hönd Stundarinnar:
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson
Fyrir hönd Reykjavik Media:
Jóhannes Kr. Kristjánsson