Landsþingi Viðreisnar lauk í gærkvöldi með kjöri Daða Más Kristóferssonar sem varaformanns Viðreisnar. Alls kusu 211 og hlaut Daði Már 198 atkvæði. Ágúst Smári Bjarkarson fékk 8 atkvæði. Auð atkvæði voru fimm.
Fyrr á þinginu var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir endurkjörin sem formaður með 341 atkvæði.
Í stjórn voru kjörin: Axel Sigurðsson, Benedikt Jóhannesson, Elín Anna Gísladóttir, Jasmina Vajzovic Crnac og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Tveir varamenn í stjórn eru Karl Pétur Jónsson og Sonja Sigríður Jónsdóttir.
Formenn málefnanefnda eru;
Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður atvinnumálanefndar,
Gunnar Karl Guðmundsson, formaður efnahagsnefndar
Ólafur Guðbjörn Skúlason, formaður heilbrigðis- og velferðarnefnar
Geir Finnsson, formaður innanríkisnefndar
Oddný Arnarsdóttir, jafnréttisnefndar
Hildur Betty Kristjánsdóttir, formaður mennta- og menningarnefndar
Jón Þorvaldsson, formaður umhverfis- og auðlindanefndar
Benedikt Kristjánsson, formaður utanríkisnefndar
Í stjórnmálaályktun Viðreisnar ítrekar flokkurinn mikilvægi þess að bæta lífskjör og tækifæri fólks í dag og fram veginn. „Við verðum að standa saman í því að fjölga störfum, bregðast hratt við loftslagsvandanum og hlúa að andlegri heilsu fólks. Við eigum líka að uppfæra fiskveiðikerfið, efla landsbyggðina og taka upp nothæfan gjaldmiðil. Með stórum skrefum tryggjum við að heimilin og fyrirtækin í landinu fái að blómstra á ný eftir Covid.
Tökum stór skref strax!
Viðreisn vill efla frelsi og jafnrétti, vinna að því að bæta lífskjör allra á Íslandi og berjast gegn forsjárhyggju með frjálslyndi. Nú eru viðsjárverðir tímar þar sem einangrunarhyggja og lýðskrum sækja í sig veðrið víða um heim. Ofan á bætist loftslagsvá, heimsfaraldur og efnahagsþrengingar sem hafa áhrif á líf okkar allra.
Nauðsynlegt er að takast á við COVID-19 pláguna af ábyrgð og festu. Hér hefur ríkisstjórnin brugðist og ekki megnað að leggja fram skýra stefnu. Gætum að velferð heimila og heilbrigði fólks, líkamlegu og andlegu, samhliða aðgerðum í efnahags- og atvinnumálum:
· Ráðumst án tafar í arðbærar fjárfestingar og verkefni á vegum ríkisins um land allt, samhliða undirbúningi fyrir frekari fjárfestingar á næstu misserum til að hamla gegn samdrætti, dragist kreppan á langinn. Byggjum þegar í stað upp hleðslustöðvar um land allt svo að Ísland verði fremst í flokki í vistvænum samgöngum. Útrýmum einbreiðum brúm strax á næsta ári. Setjum stóraukinn kraft í rafrænt Ísland og einföldum samskipti almennings við kerfið og innan kerfisins.
· Förum í markvissar tímabundnar aðgerðir til stuðnings þeim greinum sem hafa orðið verst úti, s.s. ferðaþjónustu, veitingarekstri og menningar- og listastarfsemi. Í vetur fái landsmenn 15 þúsund króna ferða- og menningargjöf sem gildi til 1. maí árið 2021.
· Beitum skattkerfinu til þess að hvetja fyrirtæki til að flýta arðbærum fjárfestingum og verkefnum, ráða til sín fólk, styrkja rannsóknir og fjárfesta í menntun, þróun og nýsköpun. Veitum skattaafslátt til þeirra sem vilja fjárfesta í atvinnurekstri. Þannig sköpum við fjölbreyttara og öflugra atvinnulíf til framtíðar.
Loftslagsváin kallar á nýjar lausnir, afdráttarlausar aðgerðir og stór skref. Ríkisstjórnin tekur þessi mál hvergi nærri nógu föstum tökum. Við þurfum að draga hraðar úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, t.d. með metnaðarfyllri aðgerðaáætlun og grænum hvötum.
Vægi atkvæða allra landsmanna á að vera jafnt. Sterkt sveitarstjórnarstig eflir landsbyggðina. Styrkja þarf aðkomu sveitarstjórna að ákvörðunum um uppbyggingu atvinnulífs og innviða.
Í sjávarútvegi á að taka upp tímabundna nýtingarsamninga og verð á veiðiheimildum á markaði. Aðeins þannig er tryggt að þjóðin öll njóti ábata og hagræðingar sem kvótakerfið hefur skapað. Þessi grundvallaratriði skal festa í stjórnarskrá. Viðreisn hafnar tillögum forsætisráðherra um stjórnarskrárákvæði sem festir núverandi ástand í sessi.
Leysum landbúnað úr viðjum kerfisins og snúum vörn í sókn með markaðslausnum, grænum áherslum og frelsi bænda til að ráða eigin búskaparháttum. Það er óásættanlegt að íslenskir neytendur borga hærra verð fyrir landbúnaðarvörur en í nágrannalöndum á sama tíma og flestir bændur bera lítið úr býtum og tryggir ekki matvælaöryggi til lengri tíma.
Íslendingar þurfa nothæfan gjaldmiðil fyrir alla, ekki bara suma. Upptaka evru með fullri aðild að Evrópusambandinu ver almenning og fyrirtæki fyrir skammtímasveiflum í hagkerfinu og lækkar vexti til lengri tíma litið.
Full aðild að Evrópusambandinu færir Íslendingum sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar um framtíð Evrópu. Þar með gefst tækifæri til þess að taka beinan þátt í mótun brýnna sameiginlegra verkefna er varða hagsmuni okkar allra.
Viðreisn styður fjölbreytt rekstrarform heilbrigðis- og menntastofnana. Fjölbreytni er lykill að betri árangri, nýsköpun og bættri þjónustu enda sé gegnsæi og jafnræði tryggt.
Hafa skal mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd. Ríkisborgurum utan EES verði auðveldað að flytjast til Íslands til að starfa hér.
Meinsemd íslenskra stjórnmála er kjarkleysi til að takast á við stóru málin og grípa dýrmæt tækifæri. Viðreisn þorir að taka stór skref strax!,“ segir þar ennfremur.