Menningarlegur tepruskapur að banna börnum að heyra helgisagnir

Séra Bjarni Karlsson.

„Hefur þú tekið eftir því hvernig hlustunin hefur dottið niður í samfélagi okkar hér á Íslandi en kvíðinn vaxið stig af stigi?“

Þessari spurningu velti sr. Bjarni Karlsson í prédikun sem hann flutti í jólamessu Vídalínskirkju í gær og vakti töluverða athygli, því Bjarni tæpti á ýmsum álitaefnum sem viðkvæmt hefur verið að ræða og ekki endilega til vinsælda fallið.

„Við hefðum getað dregið þá ályktun af efnahagshruninu fyrir tíu árum að sjá hve nátengd og háð við erum hvert öðru í raun svo að samstaða okkar hefði vaxið. En okkur skortir visku til að heyra annað en hina köldu þögn og berum því svo takmarkað skynbragð á samhengi og sjáum ekki hve fagurlega við tengjumst hvert öðru og hversu ólæknandi félagsverur við erum. Þess vegna erum við alltaf að baula hvert á annað og skiptast á fullyrðingum en eigum bágt með að setja okkur hvert í annars spor,“ sagði Bjarni og benti á að sífellt berist sögur af lýðfræðilegum greiningum á vaxandi tíðni hvers kyns raskana.

„Unglingarnir okkar eru hættir að sofa á nóttunni og hálf þjóðin á biðlista eftir samtölum við sérfræðinga. Öll að bíða eftir góðu samtali í kaldri þögn svo jafnvel ungbörn fara á mis við augnsamband við foreldra sína því þeir eru að fylgjast með lækstöðunni.“

Kalda þögnin

„Annað sem enn flækir stöðu mála er það að hin kalda þögn hefur lært að hlusta og íhuga á sinn hátt. Og hún hlustar svo vel að einhversstaðar í einhverju tölvuskýi eru varðveittar upplýsingar um þig; hvað þú elskar, hvað þú þráir, hvað þú kaupir og hvað þér finnst. Hvert einasta læk, broskarl og hjarta er vandlega skráð og sett í algoritmískt samhengi. Tengsl þín við menn og málefni, leit þín að upplýsingum um hvað sem vera skal, allt varðveitt til frekari nota. Því eitt hefur ekki breyst; keisarinn vill skrásetja heimsbyggðina. Í augum Ágústusar er fólk ýmist til gagns eða ógagns. Hann varðar ekkert um ástina en ‘kalkúlerar’ hegðunina. Hvers vegna við þráum og leitum skiptir hann engu en hvað við þráum og hvernig við leitum eru upplýsingar sem Ágústus allra tíma vill hafa í handraða sínum.

Því lifum við jafnframt á tímum sjálfskipaðrar þagnar. Þar sem almenningur hefur komist að þeirri niðurstöðu að réttast sé að ritskoða sjálfan sig og vera ekki að ræða neitt sem máli skiptir. Frekar en að tala um gildi spjöllum við um neyslu. Við segjum ekki hina sönnu sögu okkar eða berum einkenni okkar á torg því það sem við segjum verður hugsanlega notað gegn okkur á sama tíma og ekkert selst betur en afhjúpandi frásagnir þeirra sem þora. Og facebook fyllist af yfirborðslífi, samanburðarleik, þykjustu. Það er um að gera að ‘lúkka’ því enginn skilur annan og enginn skilur neitt – fyrr en skellur í tönnum.“

Virk hlustun ræður úrslitum

„Við erum sem þjóð og sem heimsbúar að hefja tímbil þar sem getan til virkrar hlustunar mun ráða úrslitum um afdrif okkar. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru í þann mund að valda vistkerfisvanda sem mun hafa mikil félagsleg og pólitísk áhrif. Flóttamannstraumur mun vaxa með hækkandi sjávarborði, auknum veðurofsa og breyttum forsendum til ræktunar og veiða.

Veröldin er að breyta um ásjónu og við vitum ekki hvernig lífið á jörðinni verður innan fárra áratuga. Það eina sem er ljóst er að mannkyn mun þurfa á allri sinni þekkingu og getu að halda í því skyni að ná tökum á tilveru sinni og að hin einfalda hugmynd nútímans um að stjórna með yfirráðum í krafti tækni-hagrænna aðferða er hluti af vandanum en ekki lausninni.

Við erum bara hér á þessari litlu bláu kúlu í svörtum geimnum. Það er fólk úti um allt og það kemst enginn í burtu þannig að það er ekkert í boði nema fjölmenning. Það eina sem við getum gert er að beita virkri hlustun.

Við munum þurfa að gerast vitringar sem nema hina hótandi þögn og leyfa henni að speglast í þeirri hlustandi þögn sem gaumgæfir og íhugar allar hliðar í kærleika. Við munum þurfa að opna dyr okkar fyrir útlendingum, blanda geði og miðla þekkingu. Við munum þurfa að þola lykt og skvaldur ókunnugs fólks og vesenið sem fylgir því. Og við munum þurfa að sjá og skilja samhengi okkar sem þátttakenda í vistkerfi þar sem allt er öðru tengt og háð.

Enginn hlustar á neinn

Þess vegna er mjög mikilvægt að almenningur í landinu leggi frá sér hina misskildu hugmynd um hið hlutlausa og ógildishlaðna almannarými þar sem allir eru umburðarlyndir en enginn hlustar á neinn og enginn skilur neinn og allir eru bara frjálsir að því að vera ólíkir í einrúmi!

Samtímis því sem við megum til að líta upp úr snjallsímunum og gefa börnum okkar augnsambandið að nýju verðum við líka að afleggja þann menningarlega tepruskap sem fólginn er í því að banna börnum að heyra helgisagnir og nema þekkingu genginna kynslóða.

Sem heimsbúar höfum við ekki efni á því að hafna neinu formi mannlegrar þekkingar í þeim fordæmalausu verkefnum sem framundan eru. Öllu heldur þurfum við virka hlustun og samráð í anda jólaguðspjallsins þar sem ólíkt fólk leggur saman og ber sína þekkingu að borðinu,“ sagði sr. Bjarni Karlsson ennfremur í jólaprédikun sinni í Vídalínskirkju.