Menningarnótt blásin af –– maraþonið líka í hættu

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar ákvað á fundi sínum í morgun að aflýsa öllum viðburðum vegna Menningarnætur í Reykjavík sem halda átti hátíðlega 21. ágúst.

Á vef Reykjavíkurborgar segir að eftir ítarlega skoðun og umræðu hafi verið einhugur í neyðarstjórn um ákvörðunina um að aflýsa fjölskylduhátíðinni vegna útbreiðslu Covid-19 smita í samfélaginu og óvissu sem ríkir um áhrif Delta afbrigðisins á börn, unglinga og aðra viðkvæma hópa.

„Við tókum þessa ákvörðun með hagsmuni allra borgarbúa að leiðarljósi. Það er mjög leitt að þurfa að aflýsa þessum frábæra degi aftur. En við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stuðla að sem eðlilegustu lífi í borginni og órofinni þjónustu. Þar stendur efst að skólastarf fari fram með eins eðlilegum hætti og hægt er og að raska sem minnst þjónustu okkar við viðkvæma hópa, svo sem aldraða og fatlaða,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra um ákvörðun neyðarstjórnar.

Fjölskylduhátíðin vinsæla Menningarnótt hefur verið haldin fyrsta laugardag eftir afmæli borgarinnar 18. ágúst frá 1996, nú með tveimur undantekningum árin 2020 og 2021.

Samkvæmt heimildum Viljans er talið óhjákvæmilegt að aflýsa Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka annað árið í röð af sömu sökum.

Uppfært kl. 17.00:

Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2021 frestað til 18. september. Tilkynning frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur:

Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur staðið að undirbúningi Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2021 af krafti síðustu mánuði. Vegna óvissu um hvaða næstu skref verða tekin varðandi samkomutakmarkanir þá sjáum við okkur ekki fært að halda viðburðinn þann 21. ágúst og verður því Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka frestað til 18. september 2021. Markmið okkar er að gera sem flestum kleift að taka þátt en um leið gæta að öllum sóttvörnum.

Mikilvægur þáttur Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka er Hlaupastyrkur, þar sem þátttakendur safna fyrir góðgerðarfélög á Íslandi. Árið 2019 var sett áheitamet þar sem hlauparar söfnuðu 167.483.404 krónum til 181 góðgerðarfélaga. Í fyrra þegar hlaupinu var aflýst þá safnaðist 72.658.607 krónur til 159 góðgerðarfélaga. Það myndi verða þungt högg fyrir safnanir félaganna ef viðburðinum yrði aflýst annað árið í röð og af þeim sökum verður honum frestað í þeirri von að ástandið batni.

Mörg góðgerðarfélög stóla á hlaupastyrk og því viljum við hvetja sem flesta til að hlaupa og safna, eða styrkja aðra hlaupara.

,,Við viljum ekki aflýsa viðburðinum því við vitum að áheitasöfnun hlaupsins skiptir mjög miklu máli fyrir góðgerðarfélögin sem safna miklum fjármunum í gegnum Hlaupastyrk.is og vonumst við eftir góðri þátttöku í söfnuninni.” segir Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri ÍBR. ,, Nú styttist í að skólahald og skipulagt íþróttastarf hefjist og því að var tekin ákvörðun um að fresta Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka um mánuð vegna óvissu um næstu skref aðgerða vegna faraldursins.”