Menntasjóður námsmanna tekur við af LÍN og lánar bæði og styrkir

Frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um Menntasjóð námsmanna var samþykkt á Alþingi í gær. Frumvarpið er afrakstur heildarendurskoðunar námslánakerfis hér á landi og miðar að því að jafna stuðning og dreifingu styrkja ríkisins til námsmanna sem taka námslán.

„Menntasjóður námsmanna verður bylting fyrir fjölbreyttan hóp fólks sem stundar háskólanám hér á landi og fjölskyldur þessa lands. Með nýju kerfi verður fjárhagsstaða námsmanna betri og skuldastaða þeirra að námi loknu ræðst síður af fjölskylduaðstæðum. Þetta framfaraskref mun stuðla að auknu jafnrétti, gagnsæi og skilvirkni í stuðningi ríkisins við námsmenn. Auk þessa nýja kerfis höfum við unnið að því síðustu ár að bæta hag námsmanna með því að auka ráðstöfunartekjur þeirra með hækkun framfærslu og tekjuviðmiða,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Helstu nýmæli í nýju námslána- og styrkjakerfi, Menntasjóði námsmanna:

• Lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns þeirra ásamt verðbótum, að loknu námi.

• Beinn stuðningur er veittur vegna framfærslu barna lánþega í stað lána, einnig fyrir meðlagsgreiðendur. Ísland verður eitt Norðurlanda sem veitir lánþegum styrki vegna meðlagsgreiðslna.

• Námsaðstoð ríkisins (námslán, styrkur vegna framfærslu barna, niðurfelling og ívilnanir) verður undanþegin lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

• Meginregla verður að bæði útgreiðsla og afborganir námslána verði mánaðarlegar.

• Ábyrgðarmannafyrirkomulag LÍN verður afnumið og ábyrgðir á námslánum falla niður að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá er veitt heimild til afsláttar til lánþega við uppgreiðslu eða innborgun námslána. Hlutfall þess afsláttar ræðst af eftirstöðvum námsláns en skal þó ekki vera lægra en 5% og ekki hærra en 15%. Endurgreiðsluhlutfall af eldri námslánum verður lækkað (hlutfallið 3,75% í 3,4% eða 4,75% í 4,4%).

• Lánþegi getur valið við námslok hvort hann endurgreiðir námslán sín með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi.

• Meginreglan verður að námslán skulu að fullu endurgreidd á því ári þegar lánþegi nær 65 ára aldri. Lánþegi getur valið að endurgreiða námslán með tekjutengdum afborgunum séu námslok hans áður eða á því ári er hann nær 40 ára aldri (þeir sem hefja nám á tímabilinu 2020-2023), annars er það 35 ára.

• Heimild er veitt til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina og vegna endurgreiðsla námslána hjá lánþegum búsettum og starfandi á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun.

Nánari útfærslur og upplýsingar um breytingarnar verða kynntar á vef Lánasjóðs íslenskra námsmanna á næstu misserum.