Merkel óttast nú samkeppni Bretlands við Evrópusambandið

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, slær nýjum tón í samskiptum við Bretland.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er talin óttast öfluga samkeppni Bretlands, eftir útgöngu þess úr Evrópusambandinu (ESB). Um þetta er fjallað í breska blaðinu Express.

Á sameiginlegum blaðamannafundi með forseta Frakklands, Emmanuel Macron, í París, sagði kanslarinn að Bretland myndi verða „mögulegur keppinautur“ ESB á alþjóðlegum mörkuðum „ásamt Kína og Bandaríkjunum,“ og „Evrópa þarf að sýna úr hverju hún er gerð,“ á hún einnig að hafa sagt en hún snæddi kvöldverð með franska forsetanum í fyrradag.

Samskipti Þýskalands og Bretlands hafa stirðnað

Varnaðarorð Merkel koma í framhaldi af orðum Michael Barnier aðalsamningamanns ESB í BREXIT, sem kvað myndu verða „afar erfitt“ að ná samningi við Bretland fyrir fund Evrópuráðsins á fimmtudaginn. Fram að þessu hefur þýski kanslarinn verið á vinsamlegum nótum gagnvart Bretlandi og væntingar voru um náin viðskiptatengsl eftir útgönguna.

Eftir nýlegt rifrildi í síma við forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, virðist nú vík á milli vina – á hápunkti skilnaðarviðræðnanna. Uggur er talinn hafa læðst að kanslaranum þegar forsætisráðherrann vildi eyða ákvæðum um „jafnræðisgrundvöll“ sem forveri hans í embætti, Theresa May, hafði áður lagt til.