Mesta firring sem hefur komið fram í ræðustól Alþingis að ekki vanti græna orku

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- og orkumálaráðherra.

Það var þungt hljóðið í Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis- og orkumálaráðherra, á þingi í gær er hann gerði grein fyrir stöðu orkumála hér á landi. Eins og þekkt er, hafa uppbyggingaráform í virkjanamálum verið stopp um langa hríð og engin eining er innan ríkisstjórnarinnar um næstu skref.

Boðaði hann þó bjartari tíma með rammaáætlun og nefndi sérstaklega, að hún hefði nú verið samþykkt með tilstyrk Vinstri grænna, og gaf lítið fyrir gagnrýni Viðreisnar á þessi mál, þar eð flokkurinn ætti aðild að meirihlutanum í Reykjavík þar sem alger stöðnun ríkti hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

„Varðandi orkuskortinn — út af loftslagsmarkmiðum þá þarf heimurinn sexfalda græna raforkuframleiðslu, sexfalda. Við þurfum bara tvöfalda hana. Hér koma þingmenn eftir þingmenn og reyna að tala um að hér vanti ekki græna orku. Það er mesta firring sem hefur komið fram hér í ræðustól Alþingis. Það er áhyggjuefni fyrir íslenska þjóð að hér séu þingmenn sem skilja ekki að hér þarf græna orku, bæði fyrir landið allt og svo einstök svæði,“ bætti ráðherrann við.