Metfjöldi smita: Sóttvarnalæknir segir faraldurinn enn í veldisvexti hér á landi

Metfjöldi greindist með COVID-19 hér á landi sl. sólarhring og segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ljóst að faraldurinn sé enn í veldisvexti hér á landi. Sl. sólarhring greindust 168 með COVID-19 innanlands og 14 á landamærum. Smitin greindust í öllum landshlutum en langflest á höfuðborgarsvæðinu.

Sóttvarnalæknir segir í pistli á covid.is, að innlögnum á sjúkrahús muni fjölga jafnframt samhliða aukinni útbreiðslu því um 2% þeirra sem greinist geti búist við að þurfa að leggjast inn á spítala vegna alvarlegra veikinda.

„Í dag eru 13 inniliggjandi á Landspítalanum vegna COVID-19 og þar af þrír á gjörgæsludeild. Auk þess liggur einn inni á Sjúkrahúsinu á Akureyrir og er sá einnig á gjörgæsludeild.

Nú er að hefjast átak í bólusetningum gegn COVID-19 þar sem að þeim sem fengið hafa tvo skammta bóluefnis verður boðinn þriðji skammtur eða svokallaður örvunarskammtur með bóluefni Pfizer. A.m.k. 5 mánuðir verða að líða frá skammti nr. tvö þar til að þriðji skammtur er gefinn. Fólk mun fá boð um mætingu í örvunarskammtinn  og vonast er til að það nást að bólusetja um 170 þúsund manns fyrir næstu áramót og 240 þúsund fyrir mars 2022.

Rannsóknir erlendis frá benda til að örvunarskammtur veiti um 90% vörn gegn smiti og alvarlegum veikindum umfram skammt nr. tvö og þannig eru sterkar vísbendingar um að hjarðónæmi muni nást með útbreiddri örvunarbólusetningu. Reynslan mun hins vegar skera úr um hver raunverulegur árangur verður eða hvort fleiri örvunarskammta þurfi að gefa á næstu mánuðum eða árum. Alvarlegar aukaverkanir eftir örvunarskammtinn eru afar fátíðar og síst algengari en eftir skammt nr. tvö. Einu frábendingar örvunarskammts eru hjá þeim sem fengu alvarlegar aukaverkanir eftir skammt tvö og eins hjá þeim sem eru með sjálfofnæmissjúkdóm sem gæti versnað við bólusetninguna. Ef fólk er með alvarlegan sjálfofnæmissjúkdóm þá ætti það að ráðfæra sig við sinn lækni um hvort bólusetning sé ráðlögð.

Talsvert hefur borið á því að fólk hafi farið í mótefnamælingu gegn SARS-CoV-2 til að ákveða hvort raunveruleg þörf sé á örvunarskammti. Því er til að svara að ekki er hægt með góðu móti að meta út frá mótefnamagni í blóði hver verndin er gegn COVID-19. Því er alls ekki ráðlagt að fara í mótefnamælingu í slíkum tilgangi nema samkvæmt ákvörðun læknis.  

Allir (nema þeir sem ofangreindar frábendingar eiga við um) eru því hvattir til að mæta í örvunarbólusetningu bæði til að vernda sjálfan sig gegn smiti og alvarlegum veikindum, og einnig til að koma í fyrir samfélagslegt smit. Aðeins með góðri þátttöku mun okkur takast að skapa hér hjarðónæmi sem mun koma í veg fyrir útbreitt smit,“ segir sóttvarnalæknir ennfremur í pistli sínum.