Metfjöldi tilfella síðasta sólarhringinn: 117 nú smitaðir af Kórónaveirunni

LSH.

Frá því í gærkvöldi hafa 27 tilfelli af Kórónaveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdóminum verið greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.

Þetta er mesti fjöldi nýrra tilfella á einum sólarhring frá því veiran var fyrst greind hér á landi fyrir tæplega hálfum mánuði.

Samtals hafa 117 einstaklingar verið greindir hér á landi. Enn sem fyrr tengjast flest smitin ferðum erlendis en innanlandssmitum fer þó fjölgandi.

Uppruna flestra smita má rekja til Norður-Ítalíu og skíðasvæða í Ölpunum en þrjú smit hafa greinst frá einstaklingum sem komu hingað frá Bandaríkjunum.

Tveir liggja nú á Landspítalanum, samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum.