Miðflokkur stækkar: Karl Gauti og Ólafur mættir til leiks

Alþingismennirnir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason hafa ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Miðflokksins frá og með deginum í dag.

Þeir félagar voru reknir úr Flokki fólksins eftir að svonefnt Klaustursmál kom upp og hafa verið utan flokka undanfarnar vikur, eða þar til nú.

„Við undirritaðir alþingismenn höfum ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Miðflokksins frá og með deginum í dag.

Á vettvangi Miðflokksins teljum við okkur geta náð betri árangri í baráttumálum okkar og styrkt málefnastöðu flokksins.

Áherslur okkar hafa birst í eindregnum stuðningi við láglaunafólk og þá sem standa höllum fæti í íslensku samfélagi og þar eigum við samleið með Miðflokknum. Við erum sammála um nauðsyn þess að leiðrétta kjör hinna lægst launuðu og skapa öldruðum og öryrkjum tækifæri til að bæta hag sinn með aukinni vinnu án skerðingar almannatryggingabóta.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins leiðir nú stærsta stjórnarandstöðuflokkinn á þingi. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Við erum sammála um áherslur í málefnum hins sístækkandi hóps aldraðra sem geti notið ævikvöldsins á heimili sínu eins lengi og unnt er, með öruggu framboði hjúkrunarrýma þegar nauðsyn knýr á um slík úrræði.  

Á Alþingi höfum við átt samleið í áherslu á nútímalegt fjármálakerfi laust við okurvexti og verðtryggingu, þróttmikið atvinnulíf og fjárhagslegt öryggi íslenskra heimila. Við erum sammála um mikilvægi réttarríkisins, mannréttinda og að standa gegn hvers kyns valdníðslu. Við viljum stórátak í samgöngumálum og styðja við sóknarfæri í hinum dreifðu byggðum landsins.

Á vettvangi Miðflokksins teljum við okkur geta náð betri árangri í baráttumálum okkar og styrkt málefnastöðu flokksins. Við höfum sameiginlega sýn á sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar, yfirráð hennar á auðlindum sínum og mikilvægi vestrænnar samvinnu. 

Við teljum að á vettvangi Miðflokksins styrkjum við stöðu okkar á Alþingi til að knýja á um framgang þeirra málefna, sem kjósendur treystu okkur fyrir í síðustu alþingiskosningum. 

Reykjavík 22. febrúar 2019

Karl Gauti Hjaltason, 8. þingmaður Suðurkjördæmis

Ólafur Ísleifsson, 10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður“