Miðflokkurinn að taka sér stöðu til hægri við framsókn og Sjálfstæðisflokk

Sigmundur Davíð með kaffibolla á þingi á dögunum. Einar Kárason í forgrunni. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Sterk andstaða Miðflokksins við Orkupakka 3 frá ESB, þýðir að stjórnarflokkarnir þurfa að huga að fleiru en eins konar uppreisn grasrótarinnar í eigin röðum, aðallega í Sjálfstæðisflokknum og að einhverju leyti líka í Framsókn.

Þetta skrifar Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, á vefsíðu sína í kjölfar flokksráðsfundar Miðflokksins í gær, þar sem Sigmundur Davíð tók harða afstöðu við innleiðingu þriðja orkupakkans.

Styrmir segir augljóst að Miðflokkurinn ætli sér að ná til þeirra kjósenda Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem eru ósáttir við þá afstöðu, sem forystusveitir þessara flokka hafa tekið til málsins.

Styrmir Gunnarsson er andsnúinn innleiðingu þriðja orkupakkans.

„Eins og áður hefur verið bent á hér á þessum vettvangi er ekki fjarri lagi að segja, að Miðflokkurinn sé að taka sér stöðu til hægri við fyrrnefndu flokkana tvo, sem minnir á Danska þjóðarflokkinn, sem skapaði sér slíka stöðu gagnvart danska íhaldsflokknum með þeim árangri, að sá flokkur er ekki svipur hjá sjón, í raun orðinn smáflokkur,“ bætir Styrmir við.

Segir hann að vel geti verið að forystusveitir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks telji sig geta hundsað samþykktir æðstu stofnana þessara flokka svo og tilfinningar grasrótarinnar, „en sýni þeir kjósendum flokkanna almennt sömu fyrirlitningu geta afleiðingarnar orðið víðtækari.“