Miðflokkurinn aldrei vinsælli: Ríflega tvöfalt stærri en Framsókn

Fylgi Miðflokksins hefur aldrei mælst meira í Þjóðarpúlsi Gallup, en í febrúar. Flokkurinn er nú með 14,2% fylgi og er það ríflega tvöfalt meira en Framsóknarflokkurinn, sem mælist með 7% fylgi.

Fylgi Samfylkingarinnar dalar, samkvæmt könnuninni, um þrjú prósentustig milli mánaða og mælist hún nú með 15%.

Fylgi annarra flokka breytist lítið, utan að Sósíalistaflokkurinn mælist með 5% fylgi og myndi þar með ná mönnum inn á þing, yrði kosið nú.

Flokkur fólksins er hins vegar með 4% og kæmist ekki að, miðað við þetta.

Stærsti flokkurinn enn sem fyrr er Sjálfstæðisflokkurinn, með 22% og Vinstri græn mælast með 11,9% fylgi. Litlu neðar eru Píratar (10,7%) og Viðreisn (10,3%).

Að venju var um að ræða netkönnun sem Gallup gerði dagana 3. febrúar til 1. mars 2020. Heildarúrtaksstærð var 7.964 og þátttökuhlutfall var 53,8%.