Miðflokkurinn bætir rúmum þremur prósentum við sig milli kannana og er nú með 9,8 prósenta fylgi, samkvæmt skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti í dag. Vinstri græn bæta við sig, ein stjórnarflokkanna, en Framsóknarflokkurinn tapar hins vegar rúmum tveimur prósentum og er dottinn niður í 7,1 prósent.
Vinstri græn mælist nú með 13,1 prósent en var með 10,2 prósent í síðustu könnun. Sjálfstæðisflokkurinn tapar hins vegar fylgi og fer úr 24,2 prósentum niður í 22,6.
Fylgi við ríkisstjórnina hreyfist hins vegar lítið milli kannana en þó segjast nú mun fleiri ekki vita hvort þeir styðja stjórnina.
Píratar bæta við sig rúmum tveimur prósentum frá síðustu könnun og fara upp í 15,2 prósent og er stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu. Samfylkingin tapar hins vegar þremur prósentum og fer niður í 14,1 prósent.
Fylgi Viðreisnar er hins vegar stöðugt milli kannana, Var 9,9 prósent í síðustu könnun og er nú 9,7 prósent. Flokkur fólksins tapar einu prósenti milli kannana og fer úr 5,3 prósentum í 4,3 prósent. Hann myndi því ekki ná manni inn á þing, ef kosið yrði nú.
„Miðflokkurinn var stofnaður 15. október 2017 og sópaði til sín miklu fylgi strax í fyrstu kosningum sem fóru fram tveimur vikum síðar og fékk tæp 11 prósent. Fylgi flokksins hrundi í kjölfar Klausturshneykslisins síðastliðið haust og fór niður í rúm fjögur prósent. Á vormánuðum var flokkurinn byrjaður að ná vopnum sínum og mældist með 6,6 prósenta fylgi í mars og er nú aðeins einu prósenti frá því að ná kjörfylgi sínu,“ segir í Fréttablaðinu í dag.
Heim Fréttaveita Miðflokkurinn bætir mjög við sig og nálgast kjörfylgið: Fylgi stjórnarinnar stöðugt