Miðflokkurinn gafst ekki upp í orkupakkamálinu þrátt fyrir 19 klst umræðu

Þingmenn Miðflokksins hafa sent forsætisráðherra tillögur og spurningar.

Enn heldur störukeppnin í orkupakkamálinu áfram á Alþingi og var fundi gærdagsins ekki slitið fyrr en rétt undir kl. 9 í morgun. Hafði hann þá staðið í um 19 klst og að langmestu leyti farið í umræður millum þingmanna Miðflokksins sem standa öndverðir gegn innleiðingu þriðja orkupakkans og vilja fresta afgreiðslu málsins.

Samkvæmt heimildum Viljans vildi Steingrímur J. Sigfússon gera tilraun til að brjóta málþóf Miðflokksins á bak aftur með því að fresta ekki fundum þingsins í gærkvöldi eða nótt. Allt kom þó fyrir ekki — þingmenn Miðflokksins skiptu með sér liði og stóðu vaktina í ræðum og andsvörum hverjir við annan — og fyrir vikið var fundi slitið aðeins fáeinum mínútum áður en nefndafundir hefjast í þinginu.

Þingfundur er boðaður kl. 15 í dag. Gert er ráð fyrir nefndadögum í þinginu á morgun og föstudag og aðeins eru örfáir starfsdagar eftir samkvæmt starfsáætlun þingsins og gríðarlegur fjöldi mála sem bíður afgreiðslu.

Þingflokkur Miðflokksins (sem stækkaði nýverið um tvo með inngöngu Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar) mun samkvæmt heimildum Viljans staðráðinn í að hafa áhrif á það, sem stærsti stjórnarandstöðuþingflokkurinn, hvaða mál fái framgang á lokadögunum og hver ekki.

Er því allt útlit fyrir að störukeppnin haldi áfram, en sjálfstæðismenn höfðu mikinn áhuga á að klára orkupakkamálið fyrir 90 ára afmæliskaffi flokksins um helgina, þar sem málið er einkar umdeilt í þeirra röðum, ef marka má nýlegar skoðanakannanir.