Miðflokkurinn gegn djúpríkinu: Auglýsir eftir reynslusögum gegn „kerfinu“

Ljóst er að yfirlýsingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um að flokkurinn vilji báknið burt, eru upptaktur að stefnumótun flokksins fyrir seinni hluta kjörtímabilsins og þar með væntanlega í aðdraganda næstu alþingiskosninga.

Mið­flokk­ur­inn fer þá óvenjulegu leið að birta heilsíðuauglýsingu í Morg­un­blað­inu í dag þar sem lýst er eftir reynslu­sögum frá almenn­ingi sem lent hefur „í kerf­in­u“.

Rímar þetta nokkuð við áherslu margra stjórnmálaflokka og áberandi stjórnmálaleiðtoga á Vesturlöndunum sem undanfarið hafa unnið stóra sigra í kosningum og vakið athygli fyrir baráttu sína gegn kerfinu eða því sem stundum er kallað djúpríkið.

Eins og Viljinn skýrði frá á dögunum, hefur Þingflokkur Miðflokksins birt tólf atriða áherslulista yfir mál sem hann leggur áherslu á á því þingi sem er nýhafið, því 150. í röðinni. Athygli vekur að meðal áhersluatriðanna er slagorðið Báknið burt, en það var leiðarljós ungra sjálfstæðismanna á áttunda áratugnum þegar menn eins og Davíð Oddsson, Friðrik Sophusson og Þorsteinn Pálsson komust til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.

Um báknið sagði í stefnuskrá Miðflokksins:

„Ár eftir ár vex umgjörð stjórnkerfisins á Íslandi og kostnaðurinn sem því fylgir. Sá kostnaður er greiddur af skattgreiðendum. Nái landsframleiðsla ekki að halda í við vöxtinn mun sífellt stærri hluti þjóðartekna fara í að standa undir rekstri kerfisins. Miðflokkurinn vill að haldið verði áfram róttækri vinnu, sem þegar hafa verið lögð drög að, við að draga úr íþyngjandi regluverki og draga saman báknið. Þannig verði íbúum og fyrirtækjum landsins gert auðveldara og ódýrara að lifa lífi sínu og skapa ný verðmæti.“

Í Morgunblaðsauglýsingunni í dag segist Miðflokkurinn ætla að gera það að forgangsverkefni að takast á við „báknið”. Því sé nú biðlað til almennings að hjálpa við þetta verkefni.

„Hefur þú lent í „kerfinu“? Hefur þú mætt óbilgirni af hálfu hins opinbera? Hefur þú upplifað óeðlilegar hindranir stjórnkerfisins við stofnun eða rekstur fyrirtækis eða í daglegu lífi?“ segir ennfremur í auglýsingunni.