Miðflokkurinn kemur enn í veg fyrir afgreiðslu þriðja orkupakkans

Þingflokkur Miðflokksins í fundarherbergi sínu. Mynd/Erna Ýr Öldudóttir

„Þingfundi var frestað 05:42 eða um það bil þegar okkar fólk var að komast almennilega á skrið í umræðu um þriðja orkupakkann.“ sagði á fésbókarsíðu Miðflokksins í nótt, en umræðum um þriðja orkupakkann var fram haldið í gærdag, gærkvöld og nótt um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra.

Alls voru tæplega þrjú hundruð ræður fluttar um málið á þingfundinum og eins og vænta mátti voru þingmenn Miðflokksins mest áberandi í umræðunni, bæði með ræðum og andsvör hjá samherjum sínum.

Enn eru nokkrir þingmenn á mælendaskrá, en gert er ráð fyrir að umræðan haldi áfram á þingfundi sem helst kl. 13.30 í dag. Meðan á málþófi Miðflokksins stendur, er allt annað stopp í þinginu og ekki ýkja margir þingdagar eftir samkvæmt starfsáætlun.

Þingmenn Miðflokksins í nótt þegar þingfundi var slitið kl. 5.42.