
Þingmenn Miðflokksins fóru mikinn í seinni umræðu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um þriðja orkupakkann í gær og nótt og komu í veg fyrir að umræðan kláraðist.
Meðfylgjandi mynd, sem birtist á fésbókarsíðu flokksins, var tekin kl. hálfsjö í morgun af þeim fimm þingmönnum flokksins sem stóðu vaktina í nótt, en þá hafði verið gert hlé á umræðunni.
Nefndadagar eru í þinginu í dag og á morgun, skv. starfsáætlun, þannig að gera má ráð fyrir að umræðan um orkupakkann haldi áfram á föstudag.
„Enn hafa ekki fundist dæmi um að þingfundur hafi staðið eins lengi fram á nótt/morgun og ekki heldur um eins langa samfellda umræðu,“ segir Miðflokkurinn í texta með myndinni á fésbókinni og bætir við: „Þó voru þeir rétt að byrja.“