Nýbyggingar Landspítala við Hringbraut eru stærsti áfanginn í íslensku heilbrigðiskerfi í meira en hálfa öld. Byggingarnar munu hafa í för með sér byltingu í aðstöðu og öryggi fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. En þessi vetur verður þó langsamlega erfiðasta og átakamesta tímabil framkvæmdanna vegna nálægðar við starfsemi spítalans og áhrifa á allt frá bílastæðum til gönguleiða, segir Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.

Hann sendi starfsfólki spítalans erindi fyrir helgi þar sem hann gerir grein fyrir framkvæmdunum og raski vegna þeirra, en vaxandi óánægju gætir vegna þeirra meðal starfsfólk spítalans og þeirra sem þangað koma. Kemur óánægjan meðal annars til vegna sprenginga og hávaða af vinnustað, mikilla vandræða sjúklinga, aðstandenda og starfsfólks með að fá bílastæði og þannig mætti áfram telja.

Páll Matthíasson prófessor og forstjóri Landspítalans.

Gömlu Hringbraut var lokað á föstudag sunnan við elstu byggingar Landspítala. Sjá á korti. Ástæðan er jarðvegsframkvæmdir vegna nýs meðferðarkjarna sem er einn verkhluti af mörgum í Landspítalaþorpinu við Hringbraut.

Mikið rask kallar á þolinmæði

„Áætlað er að að byggingu meðferðarkjarnans ljúki árið 2024 en þungi framkvæmdanna færist fjær spítalanum strax nú sumarið 2019. Starfsfólk og sjúklingar fara ekki varhluta af þessari miklu uppbyggingu og við þökkum jafnt þeim sem öðrum vegfarendum kærlega fyrir þolinmæðina. Mikið rask hefur verið í umhverfi spítalans og umferð þungavinnutækja er mjög truflandi. Heilt yfir hafa framkvæmdirnar þó gengið mjög vel og þökk sé nýrri tækni við borun og sprengingar.  Sá tiltekni verkþáttur hefur til að mynda verið þægilegri en búist var við,“ segir forstjóri Landspítalans ennfremur í bréfi sínu.

Á sérstakri vefsíðu Landspítala um verkefnið er að finna yfirgripsmiklar upplýsingar um framkvæmdirnar og tugi myndskeiða, korta og mynda.