Fjölmargir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst eindreginni andstöðu við áframhaldandi stjórnarsamstarf með Vinstri grænum, nú þegar Katrín Jakobsdóttir er hætt sem formaður flokksins og lætur senn af störfum sem þingmaður og forsætisráðherra.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur fundað þrisvar undanfarna daga og samkvæmt heimildum Viljans hefur mikil andstaða komið fram við áframhaldandi samstarf á öllum þessum fundum.
Helst eru það orkumál, ríkisfjármál og útlendingamál sem sitja í sjálfstæðismönnum, enda telja þeir þörf á stórátaki í þessum málaflokkum og telja mjög ólíklegt að árangur náist í samstarfi við Vinstri grænum í þeim efnum.
Jafnframt er ljóst að vantrausttillaga verður að óbreyttu lögð aftur fram á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í næstu viku, þegar þing kemur saman eftir páskaleyfi, og að einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætli ekki að verja hana í slíkri atkvæðagreiðslu, komi til hennar. Jón Gunnarsson, fv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hefur þegar staðfest að hann muni ekki verja Svandísi vantrausti.
Í Sjálfstæðisflokknum er talið ljóst að þingkosningar verði fyrr en seinna og flokkurinn þurfi að skerpa á sínum áherslum fyrir þær, eigi ekki mjög illa að fara. Þá er og talið að niðurlæging felist í því fyrir flokkinn, að Framsóknarflokknum og Sigurði Inga Jóhannssyni verði falið forsætisráðuneytið nú, en ekki Bjarna Benediktssyni eða Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt á fundi með forseta Íslands á Bessastöðum fyrr í dag. Forsetinn fór þess á leit við Katrínu að hún sitji áfram sem forsætisráðherra, þar til niðurstaða um nýja ríkisstjórn og nýjan forsætisráðherra liggur fyrir.