„Í nokkra daga hindruðu yfirvöld aðgang að eldstöðvunum. Það er mikil skerðing á ferðafrelsi manna. Gleymum ekki að um mesta náttúruundur landsins er að ræða og ef bjartviðri er ekki nýtt til að skoða gosið geta menn misst af því. Hann getur nefnilega dottið í alvöru vont veður með litlu skyggni, þótt því sé ekki spáð þessa dagana, og svona atburður er tímabundinn,“ segir Haraldur Ólafsson prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands um bannið við göngu nærri gosstöðvunum á Reykjanesi sem verið hefur í gildi, en var aflétt að stærstum hluta í dag.
Haraldur segir ljóst að loftið norðan eldstöðvanna hafi verið tandurhreint í þeim norðanstrekkingi sem verið hefur dögum saman. Ekki hafi frést af neinum sérfræðingi sem haldið hafi öðru fram.
„Það virðast því einhver önnur sjónarmið en eiturgufuhættumat ráða ferðinni hjá valdstjórninni. Ég skal ekki segja hver þau eru, en það hvarflar að manni að þau séu ekki rædd vegna þess að þau séu of léttvæg til að trompa ferðafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar,“ bætir hann við.
Opnað hefur verið inn á svæðið og er Meradalaleið nú opin. Í tilkynningu frá almannavörnum segir: „Ríkislögreglustjóri lýsir yfir almannavarnastigi í samráði við viðkomandi lögreglustjóra. Við upphaf eldgossins við fjallið Litla Hrút 10. júlí sl. lýsti ríkislögreglustjóri yfir hættustigi. Var það gert með hliðsjón af alvarleika atburða og þörf á nauðsynlegum viðbúnaði viðbragðsaðila. Hættustund hefst þegar hættustigi eða neyðarstigi almannavarna er lýst yfir og lýkur þegar hættustigi eða neyðarstigi er aflýst.
Á hættustundu virkjast valdheimildir sem kveðið er á um lögum um almannavarnir. Á hættustundu er lögreglustjóra heimilt að ákveða að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, þ.m.t. tilteknar fasteignir, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk. Fyrirmælum þessu er öllum skylt að hlíta.“