Mikil vonbrigði að sjá fordóma og þjóðernishyggju blossa upp á ógeðfelldan hátt

Styrmir Þór Bragason forstjóri Arctic Adventures/ skjáskot af Hringbraut.

Styrmir Þór Bragason, forstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures, sendi starfsfólki sínu bréf í morgun, sem hann segist skrifa „í ljósi misvitrar umræðu á netheimum síðustu daga.“ Félagið sagði upp öllum starfsmönnum sínum, um 150 manns, sl. fimmtudag.

Í bréfinu segir meðal annars:

„Eins og við öll vitum er ferðaþjónusta á heimsvísu að ganga í gegnum hörmungar sem eiga sér enga hliðstæðu. Það er öllum ljóst að á endanum eru það alltaf viðskiptavinir fyrirtækisins sem greiða okkur launin sem og annan rekstrarkostnað.

Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin og algjörs tekjuleysis var óhjákvæmilegt að fá ráðrúm til að endurskipuleggja rekstur Arctic Adventures og dótturfélaga. Framkvæmdastjórn, í samstarfi við stjórn félaganna, tók þá ákvörðun að segja öllum starfsmönnum þessara félaga upp störfum frá og með 1.maí.

Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum á fundinum á fimmtudaginn að fyrir mig persónulega var þetta mikill sorgardagur og einn sá erfiðasti sem að ég hef upplifað. Að ráðast í svo afdrífaríkar aðgerðir er ekki léttvægt.

Það er erfitt að þurfa að sjá að baki vinum og samstarfsmönnum sem hafa lagt sig hart fram við að búa til alþjóðlegt framúrskarandi fyrirtæki.

Við ætlum okkur að nýta tímann vel á komandi mánuðum og skoða reksturinn frá öllum hliðum, vega og meta hvaða vöruframboð við viljum bjóða upp á, og hvernig fyrirtæki við viljum vera þegar birtir á ný. Þessar aðgerðir munu gefa okkur ráðrúm til þess að tryggja áframhaldandi rekstur Arctic og koma sterk til baka. Það skiptir okkur öll máli að þegar yfir lýkur verði til öflugt fyrirtæki sem endurráði sem flesta til starfa á nýjan leik.

Eins og fram kom á fundinum munum við óska eftir starfskröftum ykkar á uppsagnarfresti í ýmis verkefni, hugmyndavinnu og þróun sem þarf að sinna á komandi mánuðum. Við skulum svo ekki gleyma því að öll él birtir um síðir. Það er mín einlæga ósk, og staðföst trú, að við munum fyrr en síðar horfa um öxl, sem samstarfsmenn, og geta sagt að þessir tímar hafi gert okkur sterkari.“

Í bréfinu vísar Styrmir Þór jafnframt til þess að nokkuð hafi borið síðustu daga á neikvæðum ummælum í garð Arctic Adventures. Þar hafi ýmis misalvarleg orð verið látin falla. Hann vilji því setja hlutina í samhengi:

„Til umræðu hefur komið að Arctic Adventures og dótturfélög hafi misnotað stöðu sína með því að notast við almenn úrræði ríkisstjórnarinnar til handa fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir miklum eða algjörum tekjumissi vegna aðgerða stjórnvalda.

Eins og við öll vitum höfum við nýtt okkur þau úrræði sem boðið hefur verið upp á, líkt og flest önnur ferðaþjónustufyrirtæki. Í því samhengi má ekki gleyma að Arctic Adventures hefur skilað ríkulega til þjóðfélagsins á síðustu árum. Með þeim aðgerðum sem nú hefur verið ráðist í eru hvað mestar líkur á því að við getum haldið því áfram innan skamms.

Á síðustu þremur árum hefur Arctic Adventures og dótturfélög þess;

  • Greitt um 1700 milljónir króna í skatta og gjöld til ríkisins og annarra opinberra aðila.
  • Greitt um 5700 milljónir króna í laun til starfsmanna sem greitt hafa skatta og opinber gjöld af þeim upp á um 1600 milljónir króna.
  • Arctic hefur keypt þjónustu lítilla fjölskyldurekinna ferðaþjónustufyrirtækja út um allt land fyrir um 1300 milljónir króna.
  • Arctic hefur keypt gistiþjónustu af fjölskyldureknum hótelum hringinn í kringum landið fyrir um 1100 milljónir króna.
  • Arctic hefur greitt um 400 milljónir króna til einyrkja í íslenskri ferðaþjónustu.

Starfsfólk Arctic Adventures kemur víða að, fjölbreytileika okkar ber að fagna og í honum felst mikill styrkur. Gleðjast á yfir því að fólk frá 36 löndum með mikla menntun, verkþekkingu og metnað hafi kosið það sem starf sitt að sýna ferðamönnum bestu hliðar landsins.

Það veldur mér miklum vonbrigðum að sjá fordóma og þjóðernishyggju blossa upp á jafn ógeðfeldan hátt og raun ber vitni. Ég tek ummælum í garð starfsfólks Arctic Adventures persónulega.

Saman, í öllum fjölbreytileika okkar, óháð þjóðerni, búsetu, kyni, kynþætti eða kynhneigð, höfum við gert Ísland að betri áfangastað og af því eigum við að vera stolt,“ segir hann ennfremur.