Mikill titringur er aftur kominn upp í íslensku viðskiptalífi vegna stöðu flugfélagsins WOW-air. Ekki tókst að ljúka viðræðum um kaup Indigo Partners á stórum hlut í félaginu og verulegri lánafyrirgreiðslu fyrir mánaðarmót, enda þótt fundað væri langt fram á gærkvöldið. Fyrir vikið runnu út undanþágur skuldabréfaeigenda sem giltu út febrúar og hefur WOW-air farið fram á að framlengt verði í þeim út mars, meðan aðilar gera með sér lokatilraunir til að ná saman. Ekki tókst að greiða starfsfólki laun í gær, en fjármálastjóri félagsins sagði í gær að það yrði gert í dag.
WOW-air birti stutta orðsendingu á ensku á vef félagsins undir miðnætti í gær. Þar sagði að ekki hefðu tekist samningar við Indigo Partners, enn sem komið er, en aðilar væru sammála um að halda viðræðum áfram í samkomulagsátt og gefa sér frest til 29. mars nk. í þeim efnum.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins stranda viðræðurnar milli WOW air og Indigo Partners á ágreiningi um hver endanleg eignarhlutdeild Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda WOW air, verði í félaginu þegar upp verður staðið.
Indigo Partners hefur gefið það út að það sé reiðubúið að fjárfesta allt að 75 milljónir dollara, jafnvirði um 9 milljarða íslenskra króna í WOW air. Hins vegar mun fjárfestingin fyrst í stað felast í formi lánveitingar til allt að tíu ára með breytirétti í hlutafé.
Eins og jafnan gerist, þegar slæmar fréttir berast af WOW-air eða þegar óvissa eykst um rekstrarhæfi félagsins, beinast augu manna að hlutabréfum í samkeppnisaðilanum Icelandair Group. Gengi bréfa í því félagi hækkuðu verulega í gær í töluverðum viðskiptum, eða um 7,5%. Það gæti einnig verið vegna tilkynningar um að gengið hafi verið frá kaupum á stórum hlut í flugfélaginu á Grænhöfðaeyjum, sem lengi hafa verið í deiglunni.