Mikill titringur vegna stöðu WOW-air: Viðræður áfram næstu daga

Mikill titringur er aftur kominn upp í íslensku viðskiptalífi vegna stöðu flugfélagsins WOW-air. Ekki tókst að ljúka viðræðum um kaup Indigo Partners á stórum hlut í félaginu og verulegri lánafyrirgreiðslu fyrir mánaðarmót, enda þótt fundað væri langt fram á gærkvöldið. Fyrir vikið runnu út undanþágur skuldabréfaeigenda sem giltu út febrúar og hefur WOW-air farið fram á að framlengt verði í þeim út mars, meðan aðilar gera með sér lokatilraunir til að ná saman. Ekki tókst að greiða starfsfólki laun í gær, en fjármálastjóri félagsins sagði í gær að það yrði gert í dag.

WOW-air birti stutta orðsendingu á ensku á vef félagsins undir miðnætti í gær. Þar sagði að ekki hefðu tekist samningar við Indigo Partners, enn sem komið er, en aðilar væru sammála um að halda viðræðum áfram í samkomulagsátt og gefa sér frest til 29. mars nk. í þeim efnum.

Tilkynningin birtist undir miðnætti á vef WOW-air.

Sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins stranda viðræðurn­ar milli WOW air og Indigo Partners á ágrein­ingi um hver end­an­leg eign­ar­hlut­deild Skúla Mo­gensen, for­stjóra og stofn­anda WOW air, verði í fé­lag­inu þegar upp verður staðið.

Indigo Partners hef­ur gefið það út að það sé reiðubúið að fjár­festa allt að 75 millj­ón­ir doll­ara, jafn­v­irði um 9 millj­arða ís­lenskra króna í WOW air. Hins veg­ar mun fjár­fest­ing­in fyrst í stað fel­ast í formi lán­veit­ing­ar til allt að tíu ára með breytirétti í hluta­fé.

Eins og jafnan gerist, þegar slæmar fréttir berast af WOW-air eða þegar óvissa eykst um rekstrarhæfi félagsins, beinast augu manna að hlutabréfum í samkeppnisaðilanum Icelandair Group. Gengi bréfa í því félagi hækkuðu verulega í gær í töluverðum viðskiptum, eða um 7,5%. Það gæti einnig verið vegna tilkynningar um að gengið hafi verið frá kaupum á stórum hlut í flugfélaginu á Grænhöfðaeyjum, sem lengi hafa verið í deiglunni.