Miklar skipulagsbreytingar í Ráðhúsinu: Þrjú kjarnasvið verða til

Þórdís Lóa Þorvalsdóttir, oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.

Tillaga formanns borgarráðs um stjórnsýslubreytingar hjá Reykjavíkurborg voru samþykktar í borgarráði í dag. Breytingarnar sem taka gildi 1. júní næstkomandi hafa það að meginmarkmiði að einfalda, skýra og skerpa stjórnarhætti og bæta þjónustu við borgarbúa. 

Vinnan var leidd af Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur formanni borgarráðs sem segir tillögurnar mikilvægar, þeim sé ætlað að stytta boðleiðir og skýra umboð. 

„Þarna erum við ennfremur að skýra ábyrgð og að stjórnsýslan sé gegnsæ með það að markmiði að bæta þjónustu við borgarbúa og tryggja skilvirkari stjórnsýslu, sem mun gagnast okkur öllum,“ segir Þórdís Lóa.

Stærsta breytingin er að til verða þrjú ný kjarnasvið, svið þjónustu og nýsköpunar, svið mannauðs og starfsumhverfis og svið fjármála og áhættustýringar. Samhliða því verður skrifstofa eigna og atvinnuþróunar, fjármálaskrifstofa og skrifstofa þjónustu og reksturs lagðar niður.

Þá fær innkauparáð aukið hlutverk auk þess sem starf regluvarðar Reykjavíkurborgar verður eflt. Með þessum breytingum er lögð áhersla á vandaða, skilvirka framkvæmd og ákvarðanatöku ásamt skipulegu og skýru eftirliti.

Hér má lesa skýrsluna og tillögurnar:

Tillögurnar ellefu 

Skýrsla Strategíu 

Ráðgjafafyrirtækið Strategía, sem sérhæfir sig í góðum stjórnarháttum, tók viðtöl við fjölda kjörinna fulltrúa og fjölmargt starfsfólk Reykjavíkurborgar. Í kjölfarið skilaði fyrirtækið skýrslu sem er grunnurinn að stjórnsýslubreytingunum sem samþykktar voru í borgarráði í dag.