Mildi að allir eru heilir eftir snjóflóð á Flateyri og í Súgandafirði

Frá Flateyrarhöfn. Varðskip í höfninni.

Lýst var yfir neyðarstigi í nótt vegna snjóflóða á Flateyri og í Súgandafirði. Þrjú snjóflóð féllu á skömmum tíma á tólfta tímanum á norðanverðum Vestfjörðum.

Tvö féllu á og við Flateyri, annað utan við leiðigarða og yfir þá
og lenti á húsi þar sem fjórir voru inni. Stúlka grófst í flóðinu og var henni bjargað, aðrir komust út af sjáfsdáðum, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá Almannavörnum ríkisins.

Hitt flóðið féll innan við leiðigarðana og alla leið ofan í höfnina þar sem bátar slitnuðu frá og nokkrir sukku. Þá féll enn eitt flóðið úr norðanverðum Súgandafirði niður á Norðureyri og fram í sjó. Við það myndaðist flóðbylgja sem skall á höfninni og fjörunni á Suðureyri þar sem bátar slitnuðu frá og sjór flaut um næstu götur. Tjón liggur ekki fyrir.

Mikil mildi þykir að engrar manneskju er saknað. Virðist sem snjóflóðagarðar, sem reistir voru eftir snjóflóðin hræðilegu á Vestfjörðum um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, hafi sannað mikilvægi sitt.

Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð þann 15. janúar kl. 23:56.

Samhæfing aðgerða fer fram í Samhæfingarstöðinni. Aðgerðarstjórn á Ísafirði var virkjuð kl. 23.44.