Millifærslur og ríkisstyrkir til fjölmiðla er galin hugmynd

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Ég hef ekki lagt það í vana minn að nota stór­yrði en nauðsyn brýt­ur regl­una. Það er gal­in hug­mynd að reyna að stuðla að frjálsri og óháðri fjöl­miðlun með um­fangs­mikl­um milli­færsl­um og rík­is­styrkj­um. Verst er að með milli­færsl­um og styrkj­um er í raun verið að rétt­læta rang­lætið á fjöl­miðlamarkaði og kom­ast þannig hjá því að fjar­lægja meinið sjálft,“ er á meðal þess sem Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á vefsíðu sinni í gær, þar sem hann gagnrýnir hugmyndir um ríkisstyrkta fjölmiðla. 

Óli Björn kveðst ekki efast um góðan hug ráðherra menntamála, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, með hugmyndum hennar um endurgreiðslur á ritstjórnarkostnaði fjölmiðla sem kynntar eru í frumvarpsdrögum sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt, en hann virðist þó vilja koma því til skila í pistli sínum að leiðin til heljar sé oft vörðuð góðum ásetningi. Ríkisstyrkir til fjölmiðla dragi úr fjárhagslegu sjálfstæði þeirra og þar með hvatanum til að sinna hlutverki sínu, sem er meðal annars að sýna ríkisvaldinu og stofnunum þess aðhald.

Segir Ríkisútvarpið komast átölulaust upp með lögbrot

Þingmaðurinn segir að sá stjórn­mála­maður sé varla til sem ekki seg­ist hafa áhyggj­ur af stöðu frjálsra fjöl­miðla. Höfð séu uppi stór orð um hve nauðsyn­legt sé að hlúa að fjöl­miðlum, enda séu þeir ein grunnstoð frels­is og lýðræðis. Fæst­ir séu þó til­bún­ir að taka til hend­inni og koma bönd­um á rík­is­rekst­ur fjöl­miðla. Varn­ar­múr­inn sem umljúki Rík­is­út­varpið sé svo þétt­ur að rík­is­fyr­ir­tækið hafi kom­ist upp með að brjóta þau lög sem um starf­semi þess gilda. Þegar vak­in sé at­hygli á þeirri staðreynd á Alþingi, loki flest­ir aug­un­um, haldi fyr­ir eyr­un og þegji.

„Lögvar­in for­rétt­indi Rík­is­út­varps­ins hafa leitt til þess úti­lokað er að tryggja heil­brigða sam­keppni á jafn­ræðis­grunni. Þannig er grafið und­an sjálf­stæðum fjöl­miðlum á hverj­um degi. Af­leiðing­in er veik­b­urða fjöl­miðlun. Frjáls­ir fjöl­miðlar berj­ast í bökk­um en fjár­hags­leg­ur hag­ur Ríkis­út­varps­ins styrk­ist með hverju ári og dag­skrár­valdið verður sí­fellt öfl­ugra,“ segir Óli Björn og bætir við að það verði að lok­um al­gjört, verði leik­ur­inn ekki jafnaður.

Leggur Óli Björn að lokum til að heldur verði skoðaðar skattaívilnanir og niðurfelling á tryggingagjaldi til að létta róður einkarekinna fjölmiðla í rekstrinum, þar eð hann sé orðinn heldur vonlítill um að dregið verði úr umsvifum Ríkisútvarpsins í bráð.