Hér fer á eftir minnisblað sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra síðdegis í gær vegna þróunar kórónaveirufaraldursins hér á landi:
Þann 20. október 2020 tók gildi reglugerð nr. 1015/2020 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem gildir til og með 10. nóvember 2020. Í reglugerðinni eru ákvæði til bráðabirgða sem gildir einungis fyrir höfuðborgarsvæðið til og með 3. nóvember 2020.
Þar er kveðið á um takmarkanir umfram takmarkanir á landsvísu er snerta íþróttastarf, opnun veitingastaða og starfsemi sem krefst mikillar nálægðar svo sem starfsemi hársnyrtistofa, snyrtistofa, nuddstofa, húðflúrstofa, hundasnyrtistofa, sólbaðsstofa og annarrar sambærilegrar starfsemi. Takmarkanirnar taka hins vegar ekki til starfsemi heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu.
Hertar innanlandsaðgerðir tóku gildi 5. og 6. október sl. og voru framlengdar að mestu óbreyttar þ. 20. október. Frá því að reglugerðin tók gildi 5. og 6. október hefur samfélagssmitum heldur farið fækkandi á landsvísu. Hins vegar hafa bæst við tvö stór hópsmit á þessum tíma. Annað var á vélbátnum Júlíusi Geirmundssyni frá Ísafirði þar sem 22 greindust og hitt hópsmitið kom upp á Landakoti, þar sem að rúmlega 80 einstaklingar hafa greinst, ýmist starfsmenn eða sjúklingar. Smitið hefur auk þess borist út fyrir Landakot til hjúkrunarheimilis á Eyrarbakka og á Reykjalund. Á þessari stundu er ekki séð fyrir endann á hópsýkingunni og ekki ljóst hvort hún muni dreifa sér víðar í samfélaginu.
Innanlandssmit að frádregnum ofangreindum hópsýkingum eru hins vegar mælikvarði á virkum samfélagssmitum. Þessum smitum hefur fækkað en síðustu dagana hefur daglegur fjöldi verið 13-28 einstaklingar. Þessa bylgju faraldursins má aðallega rekja til smita sem tengjast krám í miðbæ Reykjavíkur og til nokkurra líkamsræktarstöðva. Í seinni tíð má rekja smitin til hópamyndana í vinahópum, innan fjölskyldna og í skólum. Aðeins einn stofn veirunnar hefur greinst í þessari bylgju sem rekja má til einstaklings sem kom inn í landið þ. 10. ágúst sl.
Á þessum tímapunkti hafa greinst alls 2.396 einstaklingar hér á landi frá 15. september sl., 120 þurft að leggjast inn á sjúkrahús, sex verið lagðir inn á gjörgæsludeild, fjórir þurft á aðstoð öndunarvélar að halda og einn látist.
Vegna mikils fjölda innlagna COVID sjúklinga undanfarna daga þá hefur Landspítalinn lýst yfir neyðarstigi sem þýðir að spítalinn þurfi að virkjast að fullu leyti vegna COVID-19 og ráði ekki við verkefnið án utanaðkomandi aðstoðar. Ýmissi starfsemi hefur verið frestað og einnig hefur margvíslegri heilbrigðisstarfsemi utan spítalans verið frestað til 15. nóvember. Áhyggjuefni er því að með þetta mikið af samfélagslegu smiti í gangi muni á einhverjum tímapunkti á næstunni brjótast út hópsýkingar og valda enn meira álagi á heilbrigðiskerfið.
Smit hafa einnig komið upp í jaðarsettum hópum sem hefur valdið miklu álagi og einstaklingar í þessum hópi ítrekað ekki virt sóttkví og einangrun.
Mikið álag hefur verði á farsóttarhúsin en nú eru starfrækt fimm farsóttarhús á þrem stöðum á landinu, í Reykjvík, á Akureyri og Ísafirði. Alls eru yfir eitt hundrað manns í þessu úrræði ýmist í einangrun eða sóttkví. Meira er um veikindi meðal þeirra sem þar eru í einagrun heldur en áður í faraldrinum.
Til þess að takmarka sem mest útbreiðslu veirunnar hér á landi og koma þannig í veg fyrir alvarlegar afleiðingar af völdum COVID-19 og annarra sjúkdóma, þá tel ég rétt á þessum tímapunkti að grípa til hertra aðgerða innanlands. Ef gripið verður til slíkra aðgerða þá tel ég líklegt að þær þurfi ekki að standa lengur en 2 vikur. Aðgerðirnar sem lagt er til að ráðist verði
í snúa að því að minnka sem mest samgang einstaklinga, virða nándarregluna sem mest og auka notkun á grímum.
Samantekið eru eftirfarandi áhyggjuefni:
Harðar aðgerðir hafa verið í gildi í rúmar 3 vikur en árangur ekki verið nægilegur:
o Samfélagslegt smit
7 daga nýgengi er hækkandi (56).
14 daga nýgengi er stöðugt (58).
Litlar klasasýkingar sjást víða.
Skólar.
Vinnustaðir.
Líkamsrækt (sund ofl).
Einkasamkvæmi.
Landspítalinn er á neyðarstigi og dregið hefur verið úr framkvæmd valkvæðra aðgerða.
Farsóttarhús.
o Mikið álag og komið að þolmörkum.
o Fimm hús í rekstri.
o Smit í jaðarhópum.
Farsóttarþreyta gerir vart við sig.
Faraldurinn er í miklum vexti í Evrópu.
Tillögur um hertar aðgerðir innanlands fyrir allt landið eru eftirfarandi:
- Gildissvið.
Aðgerðirnar taki gildi sem fyrst og gildi í 2 vikur. Stöðugt endurmat verði í gangi á þessum tíma. - Fjöldatakmörk/samkomubann.
Með fjöldatakmörkum/samkomubanni er meðal annars átt við eftirfarandi:
o Ráðstefnur, málþing, fundir o.þ.h.
o Skemmtanir, s.s. tónleika, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburði og
einkasamkvæmi.
o Kirkjuathafnir hvers konar, s.s. útfarir, giftingar, fermingar og aðrar trúarsamkomur.
o Mötuneyti, kaffihús og verslanir.
o Vinnustaði
Hámarksfjöldi einstaklinga í sama rými verði tíu einstaklingar. Tryggt verði að blöndun einstaklinga verði ekki á milli hólfa hvorki í inngangi/útgangi, salernisaðstöðu, veitingasölu eða annarri þjónustu og að fyllstu sóttvarnaráðstafana sé gætt. Ofangreind fjöldatakmörk taki þó hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna né til farþegaferja innanlands eða skipa og loftfara í millilanda- eða innanlandsferðum. Viðbragðsaðilar s.s. lögregla, slökkvilið, hjálparlið almannavarna og heilbrigðisstarfsfólk verði undanþegið fjöldatakmörkum við störf sín. Hið sama á við
Alþingi, dómstóla og ríkisstjórn.
Lyfja- og matvöruverslunum undir 1.000 m2 að stærð verði heimilt að hleypa inn 50 einstaklingum en til viðbótar, einum viðskiptavini fyrir hverja 10 m² umfram 1.000 m², þó að hámarki 100 viðskiptavinum í allt. Um aðrar verslanir gildi 10 manna hámarksreglan.
Við kirkjulegar útfarir verði leyfilegur hámarksfjöldi 20 einstaklingar en í erfidrykkjum 10 manns.
Þar sem að ekki verður hægt að tryggja nálægðartakmörk (tveir metrar), eða hætta á að slíkar aðstæður komi upp verði skylt að nota andlitsgrímur. - Nálægðartakmörk.
Nálægðartakmörk verði áfram tveir metrar. Skilgreint verði að rekstaraðilum verði skylt að tryggja tveggja metra nálægðartakmörk á milli einstaklinga „sem ekki eru í nánum tengslum“. Einstaklingar verði áfram hvattir til að viðhafa tveggja metra nálægðartakmörk eins og hægt er, sérstaklega í samskiptum við ótengda/óskylda aðila.
Þar sem að ekki er hægt að viðhafa nálægðartakmörk verði skylt að nota andlitsgrímu. - Skólar, æskulýðsstarf og fræðslustarfsemi.
i. Leik- og grunnskólar.
Grunnskólum skuli lokað að hluta þannig að miðað verði við að ekki fleiri en 25 nemendur verði saman á hverjum tíma. Tryggt verði eins og hægt er með hliðsjón af þroska viðkomandi aldurshópa að nálægð milli einstaklinga í grunnskólum verði yfir tveir metrar. Grunnreglum um smitgát og hreinlætisaðgerðir verði fylgt.
Börn í leikskólum verði undanþegin tveggja metra reglunni og
fjöldatakmörkunum.
Íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verði ekki heimilt.
ii. Framhalds- og háskólar.
Tíu manna fjöldatakmörk gildi og tveggja metra nálægðartakmörk.
Sameiginlegir snertifletir verði sótthreinsaðir a.m.k. einu sinni á dag.
Mikil áhersla verði lögð á einstaklingsbundnar smitvarnir.
Í þeim tilfellum sem hvorki verður hægt að bjóða upp á fjarkennslu né
tveggja metra nálægðartakmörk, verði notkun á andlitsgrímum gerð
að skyldu.
Ungmenni fædd 2002 og síðar (á skólaskyldualdri) megi vera allt að 25
saman í hverju rými en tveggja metra nálægðarmörk gildi.
4
Ökunám og flugnám með kennara verði ekki heimilt. - Sundstaðir og líkamsræktarstöðvar.
Allar tegundir líkamsræktarstöðva og sundstaðir verði lokaðir. Líkamsrækt sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar verði bönnuð innan- sem utandyra. - Íþróttastarf.
Íþróttir innan sem utan ÍSÍ, inni og úti, með eða án snertingar verði ekki heimilar. - Sviðslistir.
Sviðslistir verði bannaðar. - Skemmti-, vínveitingastaðir, krár og spilasalir.
Krár, skemmtistaðir, spilakassar og spilasalir verði lokaðir. Veitingahúsum verði leyft að hafa opið til kl. 21:00 en gætt verði að 10 manna fjöldatakmörkum og tveggja metra nálægðarmörkum.
Tryggja skuli góð loftgæði og stilla hávaða í hóf því ef fólk þarf að tala hátt getur það leitt til munnvatnsúða mengunar í andrúmslofti þar sem loftræsting er ekki fullnægjandi.
Rekstraraðili beri ábyrgð á að sameiginlegir snertifletir verði sótthreinsaðir milli einstaklinga. - Vinnustaðir, bílar (vinnuflokkar og leigubílar), verslanir, opinberar byggingar og þjónusta.
Þessir staðir skipuleggi starfsemi sína í samræmi við ofangreint og tryggi að ekki séu fleiri en tíu einstaklingar í sama rými og að í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga.
o Bjóða skal starfsmönnum fjarvinnu eins og kostur er.
o Í samfélagslegri mikilvægri starfsemi þar sem ekki er hægt að bjóða
fjarvinnu eða tryggja tveggja metra nálægðartakmörk fyrir starfsmenn
er skylt að andlitsgrímur verði notaðar.
o Tryggja skuli góð loftgæði og stilla hávaða í hóf því ef fólk þarf að tala hátt getur það leitt til munnvatnsúðamengunar í andrúmslofti þar sem loftræsting er ekki fullnægjandi.
o Tryggður verði aðgangur að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn við innganga og í grennd við yfirborð sem margir snerta s.s. snertiskjái, afgreiðslukassa og innkaupakerrur.
o Sinnt verði þrifum og sótthreinsun yfirborða sem margir snerta eins oft og unnt er.
o Almenningur og starfsmenn verði minntir á einstaklingssóttvarnir með
merkingum og skiltum.
o Skylt verði að nota andlitsgrímur í verslunum og annarri þjónustu. - Söfn og aðrir opinberir staðir tryggi að farið sé eftir tíu manna fjöldatakmörkum, bil milli ótengdra aðila sé yfir tvo metra.
Notkun á andlitsgrímum.
Skylt verði að nota andlitsgrímur í almenningssamgöngum, í starfsemi þar sem nálægð er minni en tveir metrar, í verslunum og annarri þjónustu, og í hópum þar sem ekki er hægt að viðhafa tveggja metra nándarregluna. - Starfsemi sem eðlis síns vegna krefst meiri nálægðar en tveggja metra og smithætta er til staðar s.s. hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur, sólbaðsstofur og önnur slík starfsemi verði ekki heimil. Í starfsemi innan heilbrigðisþjónustunnar sem eðlis síns vegna krefst meiri nálægðar en tveggja metra skuli nota grímu skv. reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar nr. 1015/2020.
- Mælst er til að ekki fleiri en tíu komi saman á einkaheimilum. Undanskyldar er stærri fjölskyldur sem búa á sama heimili.