„Fátækt er nokkuð sem stjórnvöld þröngva upp á tugir þúsunda fjölskyldna. Það er minnsta mál að hætta því. Lausnirnar hafa verið ljósar lengi, verið reyndar og sannað sig,“ segir Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, en flokkurinn hefur birt sjö aðgerða pakka sem hann segir muni duga til að útrýma fátækt á Íslandi strax á næsta ári.
„Það eina sem vantar er meirihluti á Alþingi fyrir þeim. Kjósið rétt í haust. Ekki kjósa flokka sem vilja viðhalda fátækt. Spyrjið flokkana hvort þeir fallist á þessar fáu skýru og einföldu aðgerðir. Ekki kjósa þá sem blaðra um að fátækt sé eitthvað sem við eigum að sætta okkur við eða þá sem vilja endilega tala um eitthvað allt annað,“ bætir Gunnar Smári við.
Í aðgerðaáætluninni felst meðal annars að hætta að skattleggja fátækt, að enginn sé með lægri tekjur en lágmarkslaun, að börn verði ekki krafin um gjöld fyrir sjálfsagða þjónustu og njóti persónuafsláttar, að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og fjármögnuð í gegnum skattkerfið, að 30 þúsund félagslegar íbúðir verði byggðar á næstu tíu árum, að leigjendur verði verndaðir sérstaklega fyrir okri og óöryggi og almannasamtök hinna verr stæðu verði styrkt til að halda uppi öflugri hagsmunabaráttu og byggja upp réttlæti innan samfélagsins.