Mistök ríkisstjórnarinnar felast í væntingastjórnun

Þorsteinn Víglundsson varaformaður Viðreisnar.

„Viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við útspili ríkisstjórnarinnar í skattamálum voru nokkuð fyrirsjáanleg. Ríkisstjórnin hefur allt frá því hún tók við völdum reynt að gera hlut sinn í lausn yfirstandandi kjaradeilu sem mestan. Það voru mistök. Með því hefur ríkisstjórnin undirbyggt miklar væntingar af hálfu forystu verkalýðshreyfingarinnar varðandi væntanlegt útspil. Viðbrögð forystunnar og vonbrigði koma því ekki á óvart.“ segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fv. ráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Þar með er ekki sagt að útspil ríkisstjórnarinnar sé með öllu ónothæft. Þær tillögur sem settar eru fram í skattamálum eru áhugaverðar þó þær séu ekki af þeirri stærðargráðu sem verkalýðshreyfingin vænti. Það má vel vinna með þessar hugmyndir og það má einnig skoða aðrar útfærslur sem kæmu tekjulægstu hópunum betur til góða, samanber t.d hugmyndir sem settar voru fram af hálfu Samráðsvettvangs um aukna hagsæld og við í Viðreisn höfum grundvallað okkar tillögur í skattamálum á,“ segir hann í færslu á fésbókinni nú síðdegis.

En það er líka rétt að minna á að kjaradeilur eiga ekki og mega ekki lögum samkvæmt beinast að stjórnvöldum. 

„Mistök ríkisstjórnarinnar eru mistök í væntingastjórnun. Það er ekki hlutverk ríkisstjórna að leiða kjaraviðræður eða ætla sér of stórt hlutverk við lausn þeirra. Ábyrgð á lausn kjaradeilna liggur alltaf fyrst og síðast hjá aðilum vinnumarkaðarins. Það má heldur ekki vera svo að flokkar hvort sem er í meirihluta eða minnihluta séu að nýta sér kjaradeilur í pólitískum tilgangi. Þessi ríkisstjórn hefur ítrekað gert tilraun til þess að upphefja sig og mikilvægi sitt við lausn þeirrar stöðu sem uppi er á vinnumarkaði og situr nú með eggin í andlitinu eftir síðasta útspil. Við sem störfum í stjórnmálum berum öll ábyrgð á því að leggja okkar af mörkum til að leysa þann hnút sem deilurnar eru komnar í en flækja þær ekki frekar.

En það er líka rétt að minna á að kjaradeilur eiga ekki og mega ekki lögum samkvæmt beinast að stjórnvöldum. Kjaradeila sem beinist fremur að Alþingi og ríkisstjórn en vinnuveitendum er pólitísk kjaradeila og sem slík brot á vinnulöggjöfinni. Það er ábyrgðarhluti af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að fara fram með slíkum hætti. 

Það er nauðsynlegt að hér takist að leysa úr þeim hnút sem kjaraviðræðurnar eru komnar í með farsælum hætti. Þar bera allir sem að koma mikla ábyrgð, hvort sem horft er til fyrirtækja, verkalýðshreyfingar eða stjórnmálanna. Það eru miklir hagsmunir í húfi. Hagkerfið er tekið að kólna með áþreifanlegum hætti og ljóst að harðar vinnudeilur geta haft enn skaðlegri áhrif en ella við þær kringumstæður,“ segir Þorsteinn ennfremur.