Mjög miklar líkur á gosi: Segir menn hafa verið „aðeins of seina“ að taka við sér

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands. Mynd/Vísindavefur HÍ/Kristinn Ingvarsson

„Ég held að þetta sé allt að komast í farveg. Menn eru bara aðeins of seinir að taka við sér,“ segir dr. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og jarðefnafræðingur og rannsóknarprófessor hjá Háskóla Íslands í samtali við Viljann.

Ármann hefur leitt rannsóknir sem miða að því að safna upplýsingum um eldfjöll og eldgos þannig að betur megi skilja eðli einstakra eldfjalla. Ásamt samstarfsfólki við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur hann komið að vöktun eldgosa og umbrota undanfarinn aldarfjórðung. Viljinn bað hann að reyna að skýra það ósamræmi sem virðist vera í upplýsingum frá Almannavörnum um hættu á mögulegu eldgosi og upplýsingum vísindamanna. Til að mynda sagðist Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskólann, vera ansi hræddur um að við séum nálægt gosi í samtali við mbl.is sl. laugardag. Sagði hann að menn eigi að hugsa í klukku­stund­um, frek­ar en dög­um, bæði með til­liti til eld­goss og rým­ingaráætl­ana.

Ármann tekur undir þetta mat starfsbróður síns:

„Í besta falli þá er hraun að ná að Bláa lóninu, Svartsengi og niður í Grindavík á um 4-5 dögum. Hinsvegar þá er ekki ólíklegt að eldgos þarna verði mun kröftugri í byrjun, en þau sem hafa þegar komið upp. Það má ráða af því að mikil afmyndun er á svæðinu, það gefur til kynna að mun meira sé af kviku tilbúið til að koma upp en á Fagradalsfjallinu.

Ef uppstreymi væri á bilinu 150 m3/s til 300m3/s eru allar tölur og áætlanir margfalt hraðari en það sem menn eru að skoða og ímynda sér. Jafnframt hefur Þorvaldur verið að benda á að með því að hefja rýmingu og loka stöðum sem eru ekki koma beint íbúum við, sé verið að flýta fyrir rýmingu og lágmarka möguleika á því að öngþveiti verði á svæðinu,“ segir Ármann við Viljann eftir hádegi í dag.

Hann bendir jafnframt á, að nú séu mjög miklar líkur á eldgosi. „Þegar það hefst er kvika ekki lengi að koma til yfirborðs, viðbragð verður því hratt og líkur á öngþveitistástandi miklar.

Dr. Þorvaldur Þórðarson prófessor hefur lýst miklum áhyggjum af því að eldgos geti hafist með skömmum fyrirvara og litlum tíma til að bregðast við. Því þurfi strax að grípa til ráðstafana.

Síðasta sólarhring hafa um 1300 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga, þar af þrír skjálftar yfir 3 að stærð. Stærsti skjálftinn varð um 3 km NA við Þorbjörn og mældist 3,6 að stærð um kl. 7 í morgun.

Þetta kemur fram í gögnum Veðurstofunnar. Aflögunarmælingar sýna að landris heldur áfram á svæðinu NV við Þorbjörn og eru vísbendingar um aukinn hraða á þenslu frá því á föstudaginn 3. nóvember. Frá 27. október hefur land risið um 7 cm skv. GPS mælistöð á Þorbirni. Aflögunin verður vegna kvikusöfnunar í syllu á um 5 km dýpi. Samkvæmt uppfærðum líkanreikningum, sem byggja á gögnum frá 27. október til 3. nóvember, er syllan orðin tvöfalt stærri en þær fjórar syllur sem hafa myndast við Þorbjörn frá árinu 2020. Innflæði inní sylluna er metið um 7 m3/s sem er fjórfalt hraðar en fyrri innskot við Þorbjörn.

Á meðan að kvikusöfnunin heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.