Mömmuríkið: Ísland yrði í efstu sætunum, jafnvel á toppnum

„Lýðheilsustefnur sem byggja á bönnum og stýringu eru engan veginn til hagsbóta, einungis íþyngjandi. Eina breytan sem hefur áhrif á þessa þætti eru þjóðartekjur.“ / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Christopher Snowdon er forstöðumaður lífsvenjuhagfræðideildar Institute of Economic Affairs (IEA) í Bretlandi, en hann kom í heimsókn til Íslands á dögunum þar sem Viljinn náði tali af honum þar sem hann hélt erindi um „Mömmuríkið“ í Frjálsa sumarskólanum.

Rannsóknir Snowdon beinast að persónulegu frelsi, banni og stefnumótunargögnum. Hann er skrifar reglulega fyrir tímaritið EA og heilsusíðu Spectator, Spiked, City AM og Telegraph. Hann birtist oft í sjónvarpi og útvarpi þegar fjallað er um félagsleg og efnahagsleg málefni. Snowdon er jafnframt ritstjóri Mömmuríkisvísitölunnar (e. Nanny State Index), og höfundur bókanna „Killjoys“ (2017), „Selfishness, Greed and Capitalism“ (2015), „The Art of Suppression“ (2011), „The Spirit Level Delusion“ (2010) og „Velvet Glove, Iron Fist“ (2009). Hann hefur skrifað fjölmargar skýrslur fyrir IEA.

Mömmuríkisvísitalan mælir hversu mikil afskipti hins opinbera eru af einkalífi fólks. Ísland hefur enn ekki verið staðsett á Mömmuríkisskalanum. „Ég tel ekki ólíklegt að Ísland yrði í efstu sætunum, jafnvel á toppnum. Hér virðast vera flestar sömu mömmuríkisreglurnar og í Bretlandi, til viðbótar þeim sem Svíþjóð og Finnland eru með.“ 

Hvað rekur þig til að rannsaka og skrifa um afskipti hins opinbera af lífsvenjum fólks?

„Stjórnvöld eru stöðugt að leggja til og lögfesta „mömmuríkisregluverk“. Það er eftirspurn eftir endurmati á þessum stefnum á grundvelli efnahagslegra- og frjálslyndissjónarmiða. Ég byrjaði að vinna með þessi málefni fyrir áratug. Mér fannst stjórnvöld komast upp með óeðlilega mikla stjórnsemi og afskipti af lífi fólks undir yfirskini lýðheilsu. Meira heldur en ætti að þykja ásættanlegt í frjálsum lýðræðisþjóðfélögum, og ég vildi komast að því hversvegna.“

Hverja telurðu vera ástæðuna fyrir afskiptasemi hins opinbera af einkalífi fólks?

„Ég tel vera um háværan minnihluta fólks að ræða, sem vill þröngva sínum lífsstíl upp á aðra. Enn undarlegri minnihluti vill láta þvinga sig á þennan hátt. En inntak frjáls samfélags er einmitt að vernda einstaklingana gagnvart fordómum þeirra sem vilja stjórna einkalífi annarra. Flest þróuð ríki gera ráð fyrir að trú, kynhneigð og ýmis önnur mál séu einkamálefni einstaklinganna. Stjórnsemin lifir þó enn góðu lífi á öðrum sviðum einkalífs fólks, eins og varðandi reykingar og drykkju.“

Hvenær byrjaði hið opinbera að stjórna einkalífi fólks og af hverju?

„Upp úr 1970 byrjuðu stjórnvöld að færa út kvíarnar með undir yfirskini lýðheilsu. Í staðinn fyrir að einbeita sér að heilsuvandamálum sem verða ekki leyst nema með samstilltu átaki, t.d. eins og smitsjúkdómum og loftmengun, þá var byrjað að skipta sér af heilsu sem er einkamál einstaklinga. Upphaflega var lýðheilsustefnunni beint að reykingamönnum. Um leið og fólk fór að venjast þungu reglubákninu gagnvart reykingum, þá fóru lobbýistar að beina spjótum að þeim sem drekka áfengi og fólki sem borðar „rangan“ mat.“

Væri þó ekki sanngjarnt að segja að bílbeltaskyldan hafi bjargað mannslífum?

„Jú. Bílbeltaskyldunnar er þó oft minnst fyrir að hafa rutt brautina fyrir rökstuðningnum fyrir því að það eigi að vernda fólk fyrir sjálfum sér. Það eru veik siðferðisrök fyrir þvingaðri sætisbeltanotkun. Fólk skaðar ekki aðra með því að nota ekki bílbelti. Í Bretlandi höfðu menn áhyggjur af því að með því að gera sætisbeltanotkun og hjálma að skyldu, þá mundi það leiða til þess að „mömmuríkið“ myndi ekki láta þar við sitja. Ekki var hlustað á þessar áhyggjur manna þá, vegna þess að í því tilfelli þótti inngripið í frelsi fólks vera léttvægt. En þeir höfðu rétt fyrir sér, því þetta er talið hafa verið byrjunin á réttlætingunni fyrir vaxandi afskiptasemi ríkisins af einkalífi fólks í framhaldinu. Um leið og ríkisvaldið getur byrjað að refsa fólki fyrir að hugsa ekki um heilsuna, þá verður mjög erfitt að ætla að fara að setja því mörk.“

Dregur notkun reiðhjólahjálma úr hættu í umferðinni fyrir hjólreiðamenn?

„Það virðist ekki vera. Á þeim fáu stöðum þar sem notkun hjálma er skylda, þá hjóla færri vegna kostnaðar og óþæginda sem hljótast af því að þurfa að vera með hjálm. Þannig verða færri sem njóta heilsubótar af því að hjóla. Hjólreiðamenn eru útsettari fyrir hættu á vegum eftir því sem þeir eru færri. Bílstjórar hafa tilhneigingu til að sýna hjólreiðamönnum minni tillitssemi á vegunum ef þeir eru með hjálma, þar sem þeir virðast álykta að þeir séu betur varðir gagnvart slysum. Af þessum ástæðum eru hjólreiðamenn gjarnan andvígir hjálmaskyldu.“

Sparast fé í heilbrigðismálum með því að stjórna áfengis- og tóbaksnotkun almennings?

„Hið opinbera í Bretlandi, og ég er viss um einnig á Íslandi, fær gríðarlegar tekjur af sköttum og gjöldum á tóbak og áfengi. Það er eina ástæðan fyrir því að þessar vörur hafa ekki verið bannaðar. Auðvitað er heilbrigðiskostnaður í tengslum við áfengi og tóbak. En það er líka mjög mikill kostnaður af þeim sem aldrei reykja eða drekka og verða 100 ára. Talsmenn mömmuríkisins minnast aldrei á það hversu dýrt það yrði fyrir kerfið ef að allir næðu 100 ára aldri. Sú kostnaðartala yrði miklu hærri heldur en ef að allir væru offeitir alkóhólistar og stórreykingamenn. Það eru engin praktísk rök fyrir því að þvinga fólk til heilsusamlegs lífs. Það er mun nær raunveruleikanum að reykinga- og drykkjumenn niðurgreiði langlífi góðtemplaranna.“

Dregur skattheimta úr offitufaraldrinum?

„Það er enginn offitufaraldur, vegna þess að offita er hvorki sjúkdómur né er hún smitandi. Hvergi í heiminum hefur fólk grennst við að borga hærri skatta af mat og drykk. Þetta er eitthvað sem ætti ekki einu sinni að reyna, þetta er margreynt og virkar ekki.“

Hver er þín skoðun varðandi vímuefni?

„Almennt séð finnst mér að það ætti að lögleiða þau. Bann- og refsistefna hefur valdið fólki margfalt meira tjóni en vímuefnaneysla hefur nokkru sinni gert. Ég vil þó ekki meina að vímuefni skuli látin afskiptalaus, eða að vímuefnamarkaðurinn eigi að fá að vera í þeirri mynd sem hann er í dag. Áfengi og tóbak ætti að selja öllum sem hafa náð 18 ára aldri.“

Hver á þá að vernda börnin?

„Börn eru oft notuð til að réttlæta mömmuríkisreglur. Að fráskildum reglum sem er sérstaklega beint að börnum, eins og skólaskyldu og aldurstakmörkunum, hafa þessi inngrip lítil áhrif á þau. Hin raunverulegu áhrif eru, að komið er fram við okkur öll eins og börn.“

Er heilsa almennings bættari í löndum sem eru með háa mömmuríkisvísitölu?

„Nei. Það er ekki um neina fylgni að ræða á milli mömmuríkisvísitölunnar og langlífis, reykinga eða áfengisdrykkju. Lýðheilsustefnur sem byggja á bönnum og stýringu eru engan veginn til hagsbóta, einungis íþyngjandi. Eina breytan sem hefur áhrif á þessa þætti eru þjóðartekjur.“

Leita stefnumótunaraðilar til IEA eftir upplýsingum eða ráðgjöf varðandi þessi málefni?

„Afar sjaldan og svo sannarlega ekki eins oft og væri æskilegt!“

Með hverri af bókum þínum mælirðu helst, fyrir Íslendinga að lesa?

„Nýjustu bók minni, Killjoys, þar sem ég leitast við að skýra grundvallar siðleysi þess að nota valdboð til að stjórna einkalífi fólks.“ 

Það má hlaða henni niður ókeypis hér: www.iea.org.uk/killjoys