Monerium fyrst í heimi til að hljóta leyfi til útgáfu rafeyris á bálkakeðjunni

Teymið á bak við Monerium.

Íslenska fjártæknifyrirtækið Monerium, stofnað haustið 2016, er fyrst í heiminum til að hljóta leyfi stjórnvalda (e. e-money licence) til að gefa út rafeyri á bálkakeðjunni (e. blockchain). Frá þessu er m.a. sagt á miðlinum decrypt og staðfestir Sveinn Valfells, einn af stofnendum Monerium, þetta í samtali við Viljann, og kvað það vera rétt eftir sinni bestu vitund.

Fjallað er um útgáfu leyfis Fjármálaeftirlitsins (FME) til íslenska fyrirtækisins Monerium til að gefa út rafeyri skv. íslenskum lögum í erlendum fjölmiðlum, og virðist vera stillt upp á móti fyrirhugaðri útgáfu Facebook o.fl. á Libra, en Libra hefur verið kynnt til sögunnar sem rafmynt (e. cryptocurrency).

Um ósambærilega hluti er þó að ræða, þar sem rafmyntir (e. cryptocurrencies) og rafeyrir (e. e-money) eru ólík fyrirbæri, og fékk Viljinn Svein til að útskýra það nánar.

Er fyrirhuguð rafeyrisútgáfa Monerium sambærileg við fyrirhugaða útgáfu facebook o.fl. á rafmyntinni Libra?

„Það má segja að Facebook og Monerium séu að leysa sambærileg vandamál en fyrir ólíka markhópa og með talsvert ólíkum hætti. Af hvítbók (e. white paper) Libra að dæma þá virðist Facebook ætla beina athygli sinni að veita þeim sem ekki hafa aðgang að fjármálaþjónustu betri þjónustu en talið er að 1.5 milljaður jarðarbúa hafi takmarkaðan sem engan aðgang að fjármálaþjónustu. Monerium hyggst hins vegar einbeita sér að því að þjónusta þá aðila sem eru að þróa lausnir fyrir nettengd viðskipti, til dæmis fyrir vefverslun eða verðbréfaviðskipti. 

Monerium mun gefa út rafeyri skv. lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, en lögin byggja á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2009/110/EC. Libra hyggst gefa út tákn sem skilgreint er sem cryptocurrency í hvítbók þeirra en á íslensku er alla jafnan talað um sýndarfé eða rafmyntir. Sýndarfé er skilgreint í lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem „Hvers konar stafrænt fé sem er hvorki rafeyrir í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris né gjaldmiðill.““

Sveinn Valfells.

„Rafeyrisútgáfa Monerium er því mjög ólík rafmynt Facebook. Rafeyrir er viðurkenndur lagarammi fyrir útgáfu stafræns reiðufjár. Tugir milljarða af rafeyri eru í umferð i Evrópu, mikið til á formi fyrirfram greiddra korta. Það er hins vegar óljóst hvaða lagaramma Facebook ætlar að starfa eftir, ef einhvers, og rafmynt Facebook virðist vera tengd við einhvers konar myntkörfu, ekki einstaka gjaldmiðla. 

Monerium mun ekki þróa sína eigin bálkakeðju heldur gefa út rafeyri á helstu bálkakeðjur. Facebook ætlar hins vegar að gefa út Libra á eigin bálkakeðju. Monerium vill styðja við allar helstu bálkakeðjur og má vera að við gefum rafeyri einnig út á bálkakeðju Facebook með tíð og tíma,“ segir Sveinn.

Hver er munurinn á rafeyri og rafmynt?

„Rafeyrir er að mörgu leyti eins og tékkareikningur í banka sem aðskilinn hefur verið frá annari starfsemi bankans, fjárhagslega og rekstrarlega. Fjármunir viðskiptavina eru varðveittir á vörslureikningum og/eða þeim fjárfest í tryggum og auðseljanlegum eignum ásamt eiginfjárframlagi útgefanda. Rafeyrir er innleysanlegur án tafar en ólíkt innistæðum er rafeyrir ekki vaxtaberandi lögum samkvæmt. Ætla má að þekktasta form rafeyris eru fyrirframgreidd kort. 

Rafmynt er auðkenni á bálkakeðju sem oftast er ótengd öðrum eignum. Bitcoin, til dæmis, er alveg ótengt eignum. „Stablecoin” er flokkur rafmynta sem allajafna gefinn út af miðlægum aðila og er tengd undirliggjandi eignum. Markmið þeirra er að spegla verð undirliggjandi eigna en stablecoin fylgja oftast engum viðurkenndum lagaramma heldur notendaskilmálum útgefenda. Stærsti útgefandi stablecoin í dag er Tether sem ætlað er að spegla Bandaríkjadal en sveiflast talsvert í verði. Tether starfar ekki á grundvelli starfsleyfis en með því er Tether líklega að fara á svig við fjármálalögjöf í flestum þróuðum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum og aðildarlöndum ESB. Það má einnig nefna að JP Morgan hefur tilkynnt um fyrirhugaða útgáfu rafmyntar, JPM Coin, en samkvæmt JP Morgan er sú útgáfa enn á tilraunastigi og hefur ekki hlotið samþykki eftirlitsaðila.“

Geturðu útskýrt í stuttu máli hvernig rafeyrisútgáfa Monerium virkar?

„Notandi sendir Monerium þá fjárhæð sem óskað er eftir að fá útgefið. Monerium auðkennir notendann og framkvæmir áreiðanleikagreiningu samkvæmt lögum og reglum um eftirlit með peningaþvætti. Að því loknu fær notandinn útgefinn rafeyri í snjallsamning Monerium á bálkakeðju. Samningurinn er nokkurs konar bankabók og geymir yfirlit yfir innistæður notenda. Notandinn getur sent eða tekið við rafeyri með því að nota stafrænt veski.“

Hvenær er fyrirhugað að gefa út greiðslumiðlun/rafeyrislausn Monerium skv. starfsleyfi FME?

„Snjallsamningur fyrir ISK var gefinn út 17. júní til heiðurs Jóni Sigurðssyni og 75 ára afmæli lýðveldisins. Enn sem komið er útgáfa rafeyris ekki hafin en fyrirhugað er að hefja útgáfu í lokuðum hópi tilraunanotenda fljótlega.“