Mörgum fyrirtækjum í ferðaþjónustu mun einfaldlega blæða út

„Verkfallsáætlun verkalýðsfélaganna er mjög metnaðarfull og gengur út á það að valda ferðaþjónustu sem mestu tjóni með sem minnstum tilkostnaði fyrir félögin. Það mun þeim takast, ef þetta gengur eftir. Verkföllin munu orsaka tjón upp á mörg hundruð milljónir króna hvern dag sem þau standa. Þau munu valda því að ferðaþjónustufyrirtæki geta ekki veitt þjónustuna sem þau hafa lofað og ferðamenn munu ekki komast leiðar sinnar samkvæmt áætlun,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Hún segir mjög líklegt að margir gestir sem eiga bókaðar ferðir til Íslands í mars og apríl muni hætta við að koma til landsins og margir sem nú sitja við tölvuna til að bóka sumarfríið sitt, muni beina viðskiptum sínum annað.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Afleiðingarnar eru einfaldar. Laun til starfsmanna byggjast á því að fyrirtækin skapi verðmæti. Verðmætin verða til þegar viðskiptavinur kaupir vöru eða þjónustu. Svigrúm ferðaþjónustufyrirtækja til launahækkana er nú lítið sem ekkert – staðreynd sem rekja má til óhagstæðra rekstrarskilyrða undanfarin ár (t.d. vegna hás launakostnaðar og sterks gengis krónu). Ef af þessum umfangsmiklu verkfallsaðgerðum verður, þá mun mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum einfaldlega blæða út og það verða engin laun til að greiða einum né neinum,“ segir hún.

Bjarnheiður segir það ekki vera þannig, að inni í hinu dæmigærða ferðaþjónustufyrirtæki sitji feitur kall með vindil ofan á digrum sjóðum, sem hann vill ekki deila með starfsfólki sínu.

„Aldeilis ekki. Hið dæmigerða ferðaþjónustufyrirtæki er pínulítið, með færri en 10 starfsmenn í vinnu og rekið af venjulegum Íslendingum, þeim Nonna og Gunnu í næsta húsi. Það verða þau og starfsmenn þeirra, sem fyrst munu þurfa að bíta úr nálinni og síðan auðvitað samfélagið allt. Þannig að kannski er plan verkalýðsfélaganna ekkert sérlega gott og kannski heitir þetta að pissa í skóinn sinn?“