Móti stefnu um fjölmiðlalæsi gegn falsfréttum

Fjölmiðlanefnd birti í dag á vef sínum samantekt á nýrri skýrslu, sem kom út í Bretlandi í dag, (e. Cairncross Review) þar sem er fjallað um þær áskoranir sem breskir fjölmiðlar standa frammi fyrir vegna minnkandi tekna af auglýsingum og áskriftartekjum.

Engir beinir ríkisstyrkir eru veittir til einkarekinna fjölmiðla í Bretlandi, en blaðaútgefendur fá þó óbeina ríkisstyrki þar sem ekki þarf að greiða virðisaukaskatt af áskriftartekjum af prentmiðlum, að því er fram kemur í samantektinni.

Breska ríkisútvarpið (BBC) fær þó ekki að vera á auglýsingamarkaði þar í landi, ólíkt því sem er hér á landi og skekkir samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla.

Markmið skýrslunnar er að koma með tillögur um það hvernig hægt sé að tryggja faglega fjölmiðlun í Bretlandi til framtíðar. Skýrsluhöfundur telur að hægt sé að koma í veg fyrir fækkun blaðamanna á héraðsfréttamiðlum, styrkja rannsóknarblaðamennsku, auka faglega blaðamennsku og styrkja nýsköpun í stað úreltra viðskiptamódela í fjölmiðlum, með opinberum styrkjum.

Skýrsluhöfundurinn, lafði Frances Cairncross, hefur miklar áhyggjur af falsfréttum og á meðal tillagna hennar er að stjórnvöld móti stefnu um fjölmiðlalæsi almennings til að koma í veg fyrir falsfréttir, ásamt því að rannsakað verði og komið verði á fót nýrri eftirlitsstofnun til að fylgjast með sambandi fjölmiðla og tæknirisa, þar eð síðarnefndu hafi sópað til sín tekjum fjölmiðla á auglýsingamarkaði.