Mótmælendur No borders vörnuðu þingmönnum inngöngu í þinghúsið

Samsett mynd.

Til átaka kom fyrir framan Alþingi Íslendinga í dag, þegar mótmælendur á vegum No borders samtakanna fylktu liði fyrir framan þinghúsið og meinuðu þingmönnum inngöngu.

Lögregla handtók þrjá á vettvangi, en mótmælendur stóðu bæði fyrir framan innganginn að alþingisskálanum og fyrir innkeyrslu að bílastæðum þingsins.

Mótmælendurnir létu ekki segjast fyrr en lögregla skakkaði leikinn. Flestir þingmenn höfðu smokrað sér leið gegnum hópinn.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, gerði mótmælin á Austurvelli undanfarna daga, að umtalsefni við upphaf þingfundar í dag og spurði dómsmálaráðherra hvaða skoðun hún hefði á því að Reykjavíkurborg hefði gefið leyfi fyrir tjaldbúðum fyrir framan þinghúsið og dómkirkjuna.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra svaraði því til að það væri stjórnarskrárvarinn réttur fólks að mótmæla, en það væri rétt að borgin hefði gefið leyfi fyrir uppsetningu þessara tjalda — „þó þannig að mótmælendum bar að taka þau niður klukkan átta að kvöldi, sem var ekki gert. En Reykjavíkurborg aðhafðist ekkert í því og óskaði ekki eftir atbeina lögreglu og þar við sat,“ sagði hún.