Mótmælt var enn á Austurvelli í morgun vegna stöðunnar í Palestínu og viðbragða íslenskra stjórnvalda, grunnskólanemendur fóru í verkfall og fóru frekar að mótmæla, einhverjir köstuðu eggjum að þinghúsinu. Samkvæmt heimildum Viljans segja þingmenn Vinstri grænna hverjum sem heyra vill, að staðan sé algerlega á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins.
Í gærkvöldi juku Vinstri græn þrýstinginn á ráðherra Sjálfstæðisflokksins að greiða götu palestrínskra dvalarleyfishafa hingað til lands og segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra og varaformaður VG beinlínis að allt sé klárt í sínu ráðuneyti hvað varðar fjölskyldusameiningar Palestínubúa. Þær strandi nú á utanríkisráðherra og kvaðst Guðmundur Ingi „trúa á mennskuna í ríkisstjórninni“ í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi og vonaðist til að Palestínumönnum verði komið til landsins sem allra fyrst.
Þá undirstrikaði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, á Alþingi í gær, að það væri hennar vilji að halda áfram fjárframlögum til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, en Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ákvað á dögunum að stöðva, amk. tímabundið, greiðslur frá Íslandi til stofnunarinnar. Ítrekaði Katrín í svari við fyrirspurn Loga Einarssonar frá Samfylkingu, að utanríkisráðherra hefði rætt þetta mál við ríkisstjórnina eftir að hann kynnti þessa ákvörðun. „Hann ræddi þetta líka við utanríkismálanefnd Alþingis eftir að hann kynnti þessa ákvörðun,“ bætti hún við og sagði ennfremur: „Ég vil segja það hér að ég lít ekki á þessa ákvörðun sem endanlega ákvörðun heldur að íslensk stjórnvöld gefi sér tóm til að fara yfir málefni UNRWA. Það var haldinn fundur þar sem sátu fulltrúar utanríkisráðuneytisins með UNRWA þar sem mjög margt mikilvægt kom fram, m.a. að UNRWA og Sameinuðu þjóðirnar hafa brugðist mjög hratt við þeim ásökunum sem hafa verið uppi. Því hefur verið lýst yfir að allir þeir starfsmenn sem mögulega hafi komið að ólögmætu athæfi og hryðjuverkum verði dregnir til ábyrgðar. Það er búið að setja fram áætlun um viðbragð Sameinuðu þjóðanna sem ég tel trúverðuga. Ég legg á það mjög ríka áherslu að þessu samtali verði lokið, að það verði unnt að hefja aftur greiðslur til stofnunarinnar. Ég vil minna á að kjarnaframlag Íslands átti að berast á fyrsta ársfjórðungi þannig að það eitt og sér er kannski ekki dagaspursmál. Milljónir manna leggja allt traust sitt á þá aðstoð sem kemur í gegnum UNRWA og það er okkar mat að það er engin önnur stofnun sem hefur getu til að veita sambærilega aðstoð og veitt er af hálfu þessarar stofnunar.“
Deilan er ekki ný af nálinni, enda skýrði Viljinn frá því um miðjan sl. mánuð, að tekist væri á innan ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna um fjölskyldusameiningar dvalarleyfishafa frá Palestínu og aðgerðir til að hjálpa þeim til Íslands sem eru fastir á átakasvæðunum en hafa hlotið þessi réttindi hér á landi. Dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins annars vegar og félagsmálaráðherra og forsætisráðherra fyrir hönd Vinstri grænna hafa gjörólíka sýn og stefnu í málaflokknum sem flækir málin sem og meiri fjöldi umsókna palestínskra flóttamanna um hæli hér séu miklu fleiri en á nágrannalöndunum.
Nokkur hópur fólks mótmælti stöðunni á Austurvelli í dag og var eggjum m.a. kastað í þinghúsið. Í hópi mótmælenda voru grunnskólanemendur úr Hagaskóla sem munu hafa farið úr kennslu og farið þess í stað niður í bæ að mótmæla.