Mótuð verði frekari stefna um landbúnað og landnýtingu á Kjalarnesi

Reykjavíkurborg boðar til kynningarfundar á miðvikudagskvöld, 5. júní nk. um drög að samantekt starfshóps um landbúnaðarstefnu fyrir Kjalarnes. Fundurinn verður haldinn í Fólkvangi í Grundarhverfi og hefst kl. 20.00.

Starfshópurinn var skipaður í upphafi árs 2016 með tilnefndum fulltrúum allra flokka í þáverandi borgarstjórn, auk þess hafa starfað hópnum fulltrúar frá embætti skipulagsfulltrúa, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og frá skrifstofu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs.

Markmið og tilgangur starfshópsins hefur verið að móta frekari stefnu um landbúnað og landnýtingu á Kjalarnesi á grundvelli stefnu gildandi aðalskipulags um landbúnaðarsvæði og almennrar stefnu um þróun á Kjalarnesi, og mögulega leggja fram nýjar tillögur.

Starfshópurinn hefur fundað reglulega á vinnutímabilinu og m.a. var haldinn íbúafundur í Fólkvangi í nóvember 2016, þar sem tilgangur fundarins var að fá fram skoðanir íbúa vegna vinnu við stefnumörkunina. Niðurstöður þar hafa m.a. nýst vel sem innlegg í vinnu hópsins, að því fram kemur í frétt frá Reykjavíkurborg.

Viðfangsefni starfshópsins og verkefnið hefur falist í því að rýna, og eftir atvikum, endurmeta stefnu aðalskipulagsins um landbúnað og landnýtingu á Kjalarnesi. Einnig hefur þurft að rýna núverandi laga- og reglugerðarumhverfi um landbúnað, m.a. um starfsleyfisskyldan landbúnað og þauleldi. Hópurinn kallaði til sín sérfræðinga eftir því sem þörf var á. Tillögur hópsins geta falið í sér tillögur að breytingum á AR2010-2030, verklagsreglur við útgáfu starfsleyfa, ákveðnari kröfur um mat á umhverfisáhrifum þauleldis og tillögur um breytingar á laga- og reglugerðarumhverfi. Hópurinn hefur haft samráð við íbúa, landeigendur og aðra hagsmunaaðila við mótun stefnunnar.

Sjá nánar drög starfshópsins HÉR.