48,7 prósent þeirra sem tóku afstöðu eru andvíg samþykkt þriðja orkupakkans, 29,6 prósent eru hlynnt og 21,7 prósent hlutlaus.
Þetta eru niðurstöður könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið og fréttablaðið.is. Þetta eru svipaðar niðurstöður og úr könnun sömu aðila frá desember á síðasta ári.
Stærsti hópurinn, eða 36,3 prósent, er hvorki hlynntur né andvígur þriðja orkupakkanum. Af öllum svörum reyndust 30,5 prósent andvíg samþykkt orkupakkans, 18,5 prósent hlynnt, 13,6 prósent hlutlaus og rúmt eitt prósent vildi ekki svara.
Einnig var spurt að því hversu vel eða illa fólk hefði kynnt sér þriðja orkupakkann. Tæpur þriðjungur, eða 32,1 prósent, sagðist ekki hafa kynnt sér hann, og 26,5 prósent sögðust hafa kynnt sér hann illa. 22,2 prósent töldu sig hafa kynnt sér orkupakkann vel og 19,2 prósent hvorki vel né illa.
Stuðningur við samþykkt þriðja orkupakkans eykst eftir því sem fólk hefur kynnt sér málið betur. Helmingur þeirra sem hafa kynnt sér málið vel og þeirra sem hafa hvorki kynnt sér það vel né illa er andvígur samþykkt þriðja orkupakkans.
Könnun Zenter var netkönnun framkvæmd 24. apríl til 2. maí. Úrtakið var 2.500 manns en alls svöruðu 1.443, eða 57,7 prósent.