Mun kosta milljarða að kaupa losunarheimildir á næstunni

Ísland er hinn mesti umhverfissóði á pappírum, vegna sölu á upprunavottorðum raforku. Myndin sýnir kínverska verksmiðju sem notar kol við orkuframleiðslu. Mynd/Wikipedia

„Heildarlosun Íslands var 4.857 kílótonn af gróðurhúsalofttegundum árið 2018. Hún hefur aukist um 30% á milli 1990 og 2018. Samkvæmt Kýótóbókuninni, öðru tímabili, hefur Ísland skuldbundið sig til að draga úr losun um 20% árið 2020 miðað við losun árið 1990.

Þetta er stóra myndin. Það er mikill munur á 30% aukningu og markmiði um 20% minnkun. Flækjustig í umræðunni um losun og losunarheimildir er hins vegar mjög mikið. Sumt er stundum talið með og stundum er öðru sleppt, þannig að myndin er ekki alltaf alveg ljós.“

Þetta segir í nýrri hagsjá Landsbankans, þar sem sérfræðingar bankans benda á að á árinu 2023 muni fara fram uppgjör vegna annars tímabils Kýótóbókunarinnar.

„Ef niðurstaðan verður sú að Ísland hafi losað umfram úthlutaðar heimildir munum við þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir mismuninum. Helsta ástæða þessarar miklu aukningar frá árinu 1990 er aukin málmframleiðsla hér á landi, en aukin losun frá úrgangi sem verður til við urðun skiptir líka máli.

Niðurstaðan verður væntanlega sú að við Íslendingar verðum langt frá því að standa við skuldbindingar okkar og nefndar hafa verið tölur um að það muni vanta u.þ.b. 4.000 kílótonn af kolefnisígildum til að dæmið gangi upp. Erfitt er að segja hversu mikið kaup á heimildum mun kosta okkur, en sú tala mun væntanlega hlaupa á milljörðum.

Eins og áður segir er bókhaldið um losun töluvert flókið. Í fyrsta lagi er um að ræða nokkra alþjóðasamninga þar sem við höfum tekið á okkur skuldbindingar og má þar nefna allt í kringum Kýótóbókunina og svo Parísarsamkomulagið. Þá erum við einnig þátttakendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Oft er talað um losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda í því sambandi og þar er Ísland með markmið um að draga úr losun um 29% á milli áranna 2005 og 2030. Staðan hvað það markmið varðar er að slík losun hafði á árinu 2018 minnkað um 6% frá árinu 2005. Þróunin er því í rétta átt, en mikið þarf að breytast á næstu 10 árum ef markmiðið á að nást,“ segja hagfræðingar bankans.

Þeir benda aukinheldur á, að 39% af losun Íslands árið 2018 hafi orðið til vegna orku, nánar tiltekið bruna á jarðeldsneyti og vegna jarðvarmavirkjana. Losun frá orkugeiranum jókst um 3% milli 1990 og 2018. Mesta aukningin var í losun frá vegasamgöngum og jarðvarmavirkjunum. Losun frá fiskiskipum, strandsiglingum og innanlandsflugi hefur hins vegar dregist talsvert saman.

42% af heildarlosun Íslands árið 2018 kom til vegna iðnaðarferla og efnanotkunar og hefur losun vegna þessa aukist um 112% milli 1990 og 2018. Helsta ástæðan er aukning í málmiðnaði og notkun F-gasa til kælimiðlunar.

„Það er ljóst að við Íslendingar höfum sofnað á verðinum hvað varðar minnkun útblásturs og aðgæslu varðandi markmið sem við höfum sett okkur og skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur. Það sjónarmið hefur komið fram að skýra sýn vanti um hvernig Ísland ætli að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Margir telja að stjórnsýslan sé um margt veik og óskilvirk og verkaskipting óskýr í þessum málaflokki. Það skorti að tengja loftslagsmálin betur inn í allar áætlanir stjórnvalda og tengja markmið í loftslagsmálum við þróun atvinnuhátta, tækniþróun og samfélagsbreytingar.

Nokkuð víst má sem sagt telja að Ísland geti ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna Kýótóbókunarinnar. Eins og staðan er nú bendir fátt til þess að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamkomulagsins árið 2030 og markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Reyndar hafa stjórnvöld nú tilkynnt að alls verði 46 milljörðum varið til helstu aðgerða í loftslagsmálum á næstu fimm árum samkvæmt uppfærðri aðgerðaáætlun. Í fyrri áætlun frá 2018 stóð til að verja 6,8 milljörðum til málefnisins,“ segja hagfræðingarnir ennfremur.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Losunarbókhald Íslands – við stöndum okkur ekki vel (PDF)