Munaðarlaus Seðlabanki?

Fréttaskýring: Fullkomin óvissa ríkir um framtíð Seðlabankans. Ekkert bólar á frumvarpi um breytingar á Seðlabankanum en rætt hefur verið um sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka auk þess að fjölga seðlabankastjórum.

Málið hefur lengi verið í vinnslu en það er greinilega ekki nægilega mikilvægt til að fá forgang innan stjórnarráðsins. Nú hefur staða seðlabankastjóra verið auglýst, en sökum óvissunnar sem stjórnvöld hafa skapað með því að boða breytingar án þess að afgreiða þær, er ólíklegt að öflugt fólk gefi kost á sér.

Breytingar á lögum um Seðlabankann hafa verið í undirbúningi um margra ára skeið eða frá árinu 2013. Ólöf heitin Nordal leiddi vinnu við þær breytingar en ekki náðist að afgreiða málið áður en kosið var 2016.

Árið 2017 var skipuð nefnd til að gera tillögur að endurbótum á peningastefnunni og kom skýrsla um málið út um mitt síðasta ár. Þeir mánuðir sem síðan hafa liðið hafa ekki dugað ríkisstjórninni til að leggja fram frumvarp um breytingar á Seðlabankanum og er þess því enn beðið.

Það ríkir því fullkomin óvissa um það í hverju starf seðlabankastjóra muni felast að ári liðnu, hvort lögum verði breytt, á hvaða hátt þeim verði breytt, hvort bankastjórum verði fjölgað og svo framvegis.

Viðamiklar breytingar hafa verið boðaðar og felast þær meðal annars í sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlits, endurskoðun peningastefnu, fjölda bankastjóra og svo mætti áfram telja.

Af hverju var auglýst?

Nú hefur staða seðlabankastjóra verið auglýst og verður skipað í stöðuna síðar á árinu. Það hefur vakið mikla athygli að forsætisráðherra færi þá leið, án þess að gengið væri frá nauðsynlegum og margboðuðum breytingum á skipulagi bankans um leið.

Rök ráðuneytisins eru væntanlega þau, að þetta hafi verið nauðsynlegt til að falla ekki á tíma, en spurningin sem vaknar er þessi: Hvers vegna er ekki löngu komið fram frumvarp um breytingar sem hafa lengi legið í loftinu?

Á næstu misserum mun sjálfsagt reyna á Seðlabankann við hagstjórn enda er núverandi uppsveifla að renna sitt skeið á enda og fullkomin óvissa á vinnumarkaði. Því er brýnt að öflugt fólk gefi kost á sér. Það mun hins vegar ekki gerast að óbreyttu, enda telja margir að nýr bankastjóri geti horft upp á lagabreytingar jafn skjótt og hann hefur verið skipaður sem þýddu að hann þyrfti jafnvel að sækja um aftur að komast í stærri bankastjórn.

Það ríkir því fullkomin óvissa um það í hverju starf seðlabankastjóra muni felast að ári liðnu, hvort lögum verði breytt, á hvaða hátt þeim verði breytt, hvort bankastjórum verði fjölgað og svo framvegis.

Þessi heimatilbúna óvissa í boði ríkisstjórnarinnar leiðir til þess að öflugt fólk mun halda að sér höndum.