Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, gagnrýndi lausatök í ríkisfjármálunum harðlega í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag, þar sem hann sagði nauðsynlegt að ráðast strax í skattalækkanir að loknum kosningum til að tryggja að ráðstöfunartekjur almennings aukist.
„Mig langar í dag að tala um skattalækkanir, það nauðsynlega atriði sem við verðum að ganga til strax að loknum kosningum til að tryggja að ráðstöfunartekjur almennings aukist og að fyrirtæki landsins hafi meiri peninga inni á rekstrarreikningum sínum til að efla sinn hag, styrkja starfsemina, ráða fleiri starfsmenn og borga þeim betri laun. Það er eins og eitthvert raunheimarof sé í gangi núna. Við fjöllum um hin ýmsu mál tengd fjárlögum á lokametrum þessa þings en á sama tíma virðist velferðarráðherra, svo ég taki einn ráðherra sem dæmi, varla komast fram úr rúminu öðruvísi en að dreifa tugum milljóna eins og að kasta þeim út úr þyrlu. Það kemur að því að við munum þurfa að borga þá reikninga. Öll sú óráðsía sem blasir við okkur núna, þar sem ríkissjóður virðist aldrei hafa verið hanteraður með jafn óábyrgum hætti og nú er af þeim stjórnvöldum sem stýra — þeir reikningar munu allir koma til baka og við munum þurfa að borga þá,“ sagði Bergþór meðal annars.
Hann benti á að í gær hafi þingmenn rætt frumvarp um kjör alþingismanna. Kjör alþingismanna skuli breytast m.a. á þann veg að þeir njóti ekki ferðastyrkja síðustu sex vikur fyrir kosningar. „Á sama tíma ættum við að setja reglur um það að ef það hittir þannig á að taka þurfi skóflustungu að hjúkrunarheimili tveimur vikum fyrir kosningar, þá ætti ráðuneytisstjórinn að taka þá skóflustungu. Verið er að meðhöndla ríkissjóð með slíkum hætti að óforsvaranlegt er. Við munum sjá í ágúst og september endalausa runu ráðherra með þyrlupeningana sína þar sem hinum og þessum hópum er gefinn peningur í von um að það fjölgi atkvæðum. Teknar verða skóflustungur hægri, vinstri sem engin innstæða er fyrir. Alla þá reikninga verður á endanum að borga. Ég skora á forseta Alþingis, sem situr hér fyrir aftan mig og er flutningsmaður frumvarpsins, að taka það til skoðunar fyrir 3. umr. málsins að ráðherrum verði bannað að koma fram í skjóli embættis síns í uppákomum sem þessum síðustu sex vikurnar til að jafna þann aðstöðumun sem kann að verða á þingmönnum og ráðherrum þegar þar að kemur,“ bætti hann við.