Nauðsynlegt að næsta ríkisstjórn verði stjórn hinna borgaralegu flokka

Karl Gauti Hjaltason þingmaður.

„Það er nú svo í lögum flokksins að kosnir eru þrír menn í stjórnina á Landsþinginu auk formanns. Þessir þrír sem þar eru kosnir skipta svo með sér verkum í stjórninni og fara fyrir málefnum, innra starfs, upplýsinga og málefnastarfs. Þannig að það er ekki um að ræða að menn séu að bjóða sig fram í einstök embætti,“ segir Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins og fv. sýslumaður, en hann hefur ákveðið að bjóða sig fram til stjórnar Miðflokksins á landsþingi flokksins sem haldið verður í næstu viku.

Í samtali við Viljann segist Karl Gauti hafa áhuga á því, fái hann til þess stuðning, að koma meira að skipulagi og stjórn flokksins sem hann telur eiga mikið erindi í íslenskum stjórnmálum.

„Kjörnir fulltrúar flokksins hafa talað fyrir borgaralegum gildum, lýðræði og réttarríki. Þar skipta gildi eins og að standa að baki fullveldi landsins, fullum yfirráðum yfir auðlindum okkar, svo sem orkunni, fiskinum og vatninu. Við höfum talað fyrir öruggum landamærum, öryggi borgaranna með styrkri lögreglu og bættum kjörum aldraðra. Á öllum þessum sviðum hef ég ekki látið mitt eftir liggja og hef hug á því að taka enn meiri þátt í að móta framtíðarstefnu flokksins.“

Karl Gauti telur nauðsynlegt að næsta ríkisstjórn verði stjórn hinna borgaralegu flokka. „Það er til mikils að vinna að koma í veg fyrir skattaáþján og enn meiri miðstýringu með aukinni ríkisvæðingu vinstri flokkanna, eins og við höfum sýnishorn af í höfuðborginni,“ segir hann ennfremur.