Mannréttindadómstóll Evrópu, Vinstri græn, forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, þingheimur allur og umræðan almennt fær fyrir ferðina í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag, þar sem ritstjórinn Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra, heldur á penna.
„Nú síðast varð að þvinga ráðherra til að axla ábyrgð á niðurstöðu mikils meirihluta þingsins án tafar, enda hlyti hún að geta syrgt móður sína þegar betur stæði í bælið hjá belgingsliði. Allt var það háttalag til hinnar mestu skammar,“ segir forsætisráðherrann fyrrverandi og vísar þar til þess að Sigríður Á. Andersen missti móður sína, daginn áður en dómur féll í Strassborg og tveimur dögum áður en hún sagði af sér.
Davíð bendir á í bréfinu, að Íslendingar séu ekki bundnir af niðurstöðum Mannréttindadómstólsins í Strassborg.

„Hvað þýðir það og hvaða þýðingu hefur það? Það vill svo til að í þessu tilviki þýðir það nákvæmlega það sem það segir. Íslendingar eru ekki bundnir af niðurstöðum þessa dómstóls og þess vegna er eins og hver annar kjánaháttur að hafa fyrir því að áfrýja svo vitlausri niðurstöðu. Með því gæti virst að einhverjir bjálfar í ráðuneyti, og þar er enginn skortur, hafi skrökvað því að ráðherrum að Ísland sé bundið af dómstólnum. Því ráði Lissabonsáttmálinn sem margir íslenskir embættismenn starfa í raun eftir en ekki þessu skiteríi sem 98 prósent þjóðarinnar samþykktu og staðfest var á Þingvöllum 17. júní 1944. Allstór hluti þingtindáta og úr óþægilega mörgum flokkum virðist telja í hjarta sínu að best væri að Ísland yrði bundið á alla þá klafa og bása sem hægt sé að binda það á. En stjórnarskráin hefur enn að mestu komið í veg fyrir það og enn er hún mun virðingarverðari staður en fyrrnefnt hjarta í tindátanna,“ segir hann.
Og hinn nýi dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fær sína sneið í bréfinu:
„Yfirlýsingar ráðherra um „áfrýjun“ eru einhvers konar meinloka sem einhverjir hafa komið inn hjá honum, vonandi þó ekki þeir sömu sem séð hafa honum fyrir öllum villuljósunum varðandi orkupakka sem hefur verið dapurlegt að horfa upp á, ekki síst fyrir þá sem höfðu væntingar til þessa ráðherra.
Varla felst í áfrýjunartalinu fyrirheit ráðherrans um að hann muni telja sig bundinn af niðurstöðu þeirrar áfrýjunar? Sé svo þá verður ekki komist hjá því að ætla að ráðherranum sé enn meira uppsigað við íslensku stjórnarskrána en hollt er eða skiljanlegt.

Þess utan hefur þessi ráðherra nú tvívegis skrifað undir eftirfarandi yfirlýsingu á Bessastöðum: „Ég undirrituð sem skipuð er ráðherra í ríkisstjórn Íslands lofa hér með og heiti því að halda stjórnskipunarlög landsins og gegna trúlega og dyggilega skyldum þeim er framangreint embætti og veitingarbréf mitt leggja mér á herðar.“
Það hefur aldrei verið liðið að einn flokkur í samsteypustjórn krefjist þess að ráðherra annars flokks víki úr ríkisstjórninni eða reyni að hafa afskipti af vali annarra stjórnarflokka á þeirra ráðherrum.
Þetta loforð við þjóð sína er ekki hægt refsilaust að teygja til eða toga og það gera menn varla heldur þótt þeir eigi það ekki við annað en samvisku sína. Hún er mörgum nokkurs virði.“
Upplýsa þarf þátt Vinstri grænna
„Það hefur verið haft til skýringar eða til afsökunar á því að dómsmálaráðherrann alsaklaus sagði óvænt embætti sínu lausu, að það hafi gerst vegna þess að hennar eigin flokkur hafi látið undan kröfum forystumanna annarra stjórnarflokka um afsögn.
Því er vissulega mjög erfitt að trúa, en þarf að fá upplýst svo enginn vafi ríki á. Það hefur aldrei verið liðið að einn flokkur í samsteypustjórn krefjist þess að ráðherra annars flokks víki úr ríkisstjórninni eða reyni að hafa afskipti af vali annarra stjórnarflokka á þeirra ráðherrum.
Bréfritari minnist aðeins eins atviks frá nærri 15 ára samfelldri stjórnarsetu þar sem það gat virst að verið væri, með óljósum tilburðum þó, að ýja að slíku. Þótt ekkert væri sagt áttaði viðkomandi sig strax á að ekki væri ráðlegt að leggja lengra út á þá braut.

Það sem gerir það hins vegar nauðsynlegra en ella að gert sé hreint fyrir þessum dyrum er að forsætisráðherrann hefur svarað spurningum um endurkomu ráðherrans með einkennilegum hætti, og látið eins og hún hafi eitthvað með það mál að gera, fyrir utan formsþáttinn.
Fjölmiðlar greindu frá því að eftir að Sigríður Andersen hafði sagt af sér („stíga til hliðar“ er villandi) þá hefði Katrín forsætisráðherra verið spurð hvort Sigríður ætti afturkvæmt í ríkisstjórn. Og að hún hefði svarað: „Það er ekki tímabært að segja til um það.“ Rétta svarið var að það atriði væri algjörlega mál Sjálfstæðisflokksins,“ segir Davíð ennfremur og bendir á, að þótt þetta svar ráðherrans virðist sakleysisleg, veki orð forsætisráðherrans undrun.
„Það er ekki gömul saga að mjög flísaðist úr þingflokki VG í síðustu stjórnarþátttöku flokksins þannig að ríkisstjórnin hafði misst meirihluta sinn á miðju því kjörtímabili, en sat þreytt, löskuð og lömuð áfram í trausti þess að þingmenn smáflokka, sem vitað var að hyrfu af þingi um leið og kjósendur næðu til þeirra, myndu tryggja eigið viðurværi eins lengi og þeir gætu. Seinkaði þetta ábyrgðarleysi Jóhönnu og Steingríms því að Ísland kæmist eins fljótt á lappir og kostur var.
Engum dettur í hug að VG sé spennt fyrir kosningum núna. Og tal um myndun fimm flokka vinstristjórnar í verkfallshrinu og hótunum er undarlegt. Vilji VG í slíka stjórn með Pírötum og öðru smælki ætti enginn að setja fót sinn fyrir það. Sú stjórn myndi springa með tilþrifum og slá hraðamet stjórnarinnar sem sprakk, hugsanlega út af einhverju, eftir því sem best er vitað.
Það yrði ekki uppskrift að bjartri framtíð fyrir VG,“ segir Davíð ennfremur og vitnar þar til örlaga Bjartrar framtíðar, sem sleit stjórnarsamstarfi á næturfundi, sem kunnugt er, og hefur lítið spurst til þeirra síðan.