Allir bólusettir einstaklingar eða þeir sem eru með staðfesta fyrri sýkingu sem koma til Íslands þurfa að framvísa ekki eldra en 72 klst. gömlu neikvæðu Covid-prófi, PCR eða antigen (hraðprófi), við byrðingu erlendis samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra á grundvelli minnisblaðs sóttvarnalæknis.
Ríkisstjórnin fundaði í hádeginu um nýjar tillögur sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á landamærunum. Ákvörðun ráðherra kemur í framhaldi af þeim fundi. Ekki er fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að krefjast skimunar hjá þeim Íslendingum og útlendingum búsettum hér sem koma til landsins, en þess í stað er þeim tilmælum beint til þeirra sem búsett eru hér á landi auk annarra sem hafa hér tengslanet að fara í sýnatöku hér á landi strax eftir komuna til landsins, þó þau séu einkennalaus.
Í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins segir:
„Í nýju minnisblaði sóttvarnalæknis, sem rætt var í ríkisstjórn í dag, kemur fram að undanfarið hafi COVID-19 smitum fjölgað verulega hér á landi. Flest smit séu af völdum delta afbrigðis kórónaveirunnar. Samkvæmt niðurstöðum erlendra rannsókna hafi komið í ljós að fullbólusettir einstaklingar geta smitast af COVID-19 og geta jafnframt smitað aðra. Sóttvarnalæknir telur að núverandi fyrirkomulag muni auka hættuna á frekari útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu og nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar svo ekki þurfi að grípa til takmarkana á samkomum innanlands.
Heilbrigðisráðherra hefur því ákveðið fyrrnefndar breytingar á sóttvarnaaðgerðum á landamærum sem taka munu gildi 26. júlí nk.
Óbólusettir einstaklingar þurfa áfram að framvísa PCR-vottorðum sem eru ekki eldri en 72 klst. gömul, auk þess þurfa þeir áfram að fara í tvær PCR-skimanir með fimm daga sóttkví á milli skimana.
Börn fædd 2005 eða síðar verða áfram undanþegin öllum aðgerðum á landamærum.“