Netáreitni gagnvart blaðamönnum vaxandi vandamál

Netáreitni gagnvart blaðamönnum er vaxandi vandamál á Norðurlöndunum og um heim allan og þessi tilhneiging er líka þekkt á Íslandi, en frá því greinir Blaðamannafélag Íslands á vef sínum.

Blaðamannafélagið í Finnlandi hefur útbúið viðbragðspakka fyrir blaðamenn sem sæta slíkum árásum, en þær eru taldar geta stuðlað að sjálfsritskoðun og þöggun blaðamanna auk þess að hafa ýmis konar neikvæð sálræn áhrif. 

Birgir Guðmundsson.

Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri, skrifaði fræðigrein sem birtist í veftímariti Háskóla Íslands, Stjórnmál og stjórnsýsla, um sjálfsritskoðun íslenskra blaðamanna.

Megin niðurstaðan er sú að áhrif umræðunnar um fréttir og fréttamat blaðamanna hafi mikil áhrif á efnistök og framsetningu, bæði almenn stemning í þjóðfélaginu og ekki síður viðbrögð frá áhrifmiklum stjórnmálamönnum og skoðanaleiðtogum í netheimum. 

Pólitík og viðskiptablokkir hafa áhrif

Enn fremur skipti máli hvar þeir fjölmiðilar sem blaðamenn vinna á eru staðsettir í pólitískri og viðskiptalegri blokkaskiptingu íslenska fjölmiðlakerfisins.

Þá sýna niðurstöður ólíkan skilning blaðamanna á hugtakinu sjálfsritskoðun og að brýnt sé að að skilgreina það ef nota á það til greiningar. Loks kemur fram að almenn þjóðfélagsumræða ásamt áhrifmiklum stjórnmálamönnum og skoðanaleiðtogum í netheimum hafi mest áhrif á sjálfsritskoðun blaðamanna.

Fagrit blaðamannafélagsins í Finnlandi hefur látið útbúa plakat í viðbragðspakkann, til að hengja upp á vinnustöðum blaðamanna, með leiðbeiningum um hvernig má bregðast við áreiti á netinu. 

Samantekt á leiðbeiningunum:

  • Vistaðu allar ógnanir og hótanir
  • Blokkaðu strax þá sem senda hatursfull skilaboð
  • Fáðu aðstoð kollega við að opna ógnandi skilaboð 
  • Tryggðu öryggi persónulegra upplýsinga þinna
  • Láttu yfirmenn vita ef þú ert skotmark hatursummæla vegna vinnunnar 
  • Láttu loka fyrir aðgang að upplýsingum um síma og heimilisfang þitt
  • Vertu á varðbergi gagnvart því að samræður sem þú átt í síma gætu verið teknar upp af viðmælandanum 
  • Gættu þess að passa upp á andlega heilsu og hætta í verkefnum sem reynast þér andlega ofviða
  • Mundu að hver sem er geti orðið skotmark haturs, svo ekki er ástæða til að taka því persónulega