43 tilfelli á einni viku: Neyðarástandi lýst yfir — Tvö innlend smit greinast

LSH.

Sex ný tilfelli Kórónaveirunnar hafa greinst nú í dag hér á landi. Þar af eru tvö innanlandssmit, sem markar tímamót hér á landi og hefur því verið lýst yfir neyðarástandi almannavarna.

Samkomubann er til skoðunar og er búist við að það taki gildi innan skamms, en til þess er þó ekki komið enn. Það hljóti þó að styttast í þann tímapunkt.

„Eitt það sterkasta sem við höfum í verkfærakistunni er samkomubann og það þarf að beita því rétt og óumflýjanlegt að fara þá leið á einhverjum tímapunkti,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra.

Tilfellin hér á landi eru orðin 43 á aðeins einni viku, en ríflega fjögur hundruð sýni hafa verið tekin. Karl og kona yfir sextugt hafa greinst, en þau hafa ekki verið á ferðalagi á hættusvæðum, en tengjast fólki sem er nýkomið heim.

Hættustig almannavarna er komið í neyðarstig. Aðeins fyrir nokkrum vikum var viðbúnaðastigið uppfært í hættuástand.

Tveir ráðherrar eru viðstaddir blaðamannafund landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarna, sem stendur nú yfir.

TILKYNNING FRÁ ALMANNAVÖRNUM

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveiru (COVID-19). Fyrstu smit innanlands voru staðfest í dag. Þau eru tvö talsins.

Í kjölfarið var ákveðið að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna. Það er gert m.a. á grunni þess að sýkingin er nú farin að breiðast út innanlands.

Virkjun neyðarstigs hefur ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig sem varað hefur frá 28. febrúar sl. Ekki hefur verið lagt á samkomubann.

Stjórnvöld og viðbragðsaðilar hafa undanfarið unnið að miklu leyti eins og um neyðarstig væri að ræða og því hafa ýmsar ráðstafanir sem neyðarstig kveður á um þegar verið gerðar. Þar má nefna áætlanir um vöktun og farsóttagreiningu ásamt því að tryggja að sóttvarnaráðstöfunum sé beitt.

Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu.