Niðursveiflan miklu skarpari en talið var — haustið lítur sérlega illa út

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Samanlögð áhrif falls WOW air, gengisáhrifa, aukins kostnaðar, vandamála tengdum Boeing MAX vélunum, hækkun flugfargjalda, verðlagsáhrifa og almennt minnkandi eftirspurnar á lykilmörkuðum hafa gjörbreytt stöðunni í íslenskri ferðaþjónustu á stuttum tíma.

Þetta kom fram í erindi Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, á hádegisfundi í Norræna húsinu í gær, þar sem kynnt var ný bók um ris og fall flugfélagsins WOW air eftir Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu.

Óhætt er að segja, að Jóhannes Þór hafi málað stöðuna í íslenskri ferðaþjónustu (og þar með íslensku efnahagslífi) dökkum litum í fyrirlestri sínum og ljóst að áhyggjur af slæmum áhrifum af gjaldþroti flugfélagsins voru ekki út í loftið.

Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Höggið vegna gjaldþrots WOW er mikið.

„Þessi samanlögðu áhrif munu hafa miklu meiri áhrif á ferðaþjónustuna og þjóðarbúið í heild sinni en greiningaraðilar og stjórnvöld virðast gera sér grein fyrir,“ sagði Jóhannes Þór.

„Augljóst er að niðursveiflan er miklu skarpari en talið var fyrstu mánuði ársins. Haustið lítur sérlega illa út. Hætta er á að áhrifin á landsbyggðina verði sérstaklega slæm,“ bætti hann við.